16.09.1919
Efri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Halldór Steinsson:

Af því, að um stórmál er að ræða, finst mjer jeg ekki geta látið það fara svo úr deildinni, að jeg segi ekki um það nokkur orð; og skal jeg þá fyrst minnast á ræðu hv. 1. þm. Rang. (E. P.). — Niðurstaða hans var sú, að hann myndi greiða atkv. með till., af því að hann bjóst við, að þjóðin yrði móti skilnaðinum og kirkjan styrktist því í sessi.

Mjer finst aðrar ástæður verða að koma til greina til þess, að svona till. skuli vera borin fram hjer í þinginu. Til þess, að slík mál sem þessi eigi að koma fram á Alþingi, verða að liggja fyrir um það óskir frá þjóðinni, en það er síður en að svo sje, en flm. till. í Nd. finst þetta svo mikið nauðsynjamál, að Alþingi eigi að knýja fram atkvæði þjóðarinnar um það.

Aðalástæðurnar, sem færðar eru fram þessu til stuðnings, eru tvær, sumpart þrá manna til þess að vera óbundnir í trúarefnum, og annars vegar óánægja yfir gjöldum þeim, er þjóðkirkjan hefir í för með sjer fyrir ríkissjóð.

Jeg er sannfærður um, að þó að till. þessi næði fram að ganga, mundu þeir, sem óánægðir eru með núverandi fyrirkomulag, ekki verða ánægðari með það, sem við tæki.

Í stjórnarskránni eru ekki lögð nein höft á trúfrelsi manna, því samkvæmt 46. gr. hennar er mönnum rjett að þjóna guði sínum með þeim hætti, sem best á við sannfæring hvers eins, að svo miklu leyti sem það brýtur ekki bág við gott siðferði og allsherjarreglu. Og samkvæmt 47. gr. hennar má enginn missa neins af borgaralegum og þjóðlegum rjettindum fyrir sakir trúarbragða sinna, og loks mælir 18. gr. stjórnskipunarlaga frá 1915 svo fyrir að enginn sje skyldur að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist, en þeir, sem svo er ástatt um, að þeir eru utan þjóðkirkjunnar, mega, í stað þess að greiða prests- og kirkjugjöld, gjalda styrktarsjóði við háskólann þau gjöld, er þeim ella hefði borið að greiða til stuðnings þjóðkirkjunni.

Sjest berlega á þessu, að trúarlíf manna er algerlega óbundið, þótt þjóðkirkja sje viðurkend, og getur þessi ástæða því ekki komið til greina.

En um hina ástæðuna er það að segja, að þeir, sem nokkra trúarþörf hafa, munu hópa sig saman í stærri eða minni söfnuði, og er ekki hægt að gera ráð fyrir, að kostnaður verði minni við það, þó að hann kæmi öðruvísi niður.

Falla því báðar þessar ástæður um sjálfar sig.

En aðalspurningin er sú, hvaða afleiðingu það hafi í för með sjer, ef spor þetta er stigið. Og frá mínu sjónarmiði yrði það óheillaspor.

Prestarnir hafa öldum saman verið aðalfrömuðir menningar, hver í sinni sveit. Þeir hafa oft verið einu mentamennirnir í sveitinni og haft víðtæk og góð áhrif, vegna náinna kynna af sóknarbörnum sínum. Það er ekki hægt að færa sem ástæðu á móti þessu, að þeir prestar hafi verið til, er frekar hafi drepið en glætt trúaráhuga sóknarbarna sinna. Það sannar ekkert annað en það, að oft er misjafn sauður í mörgu fje, því mikill meiri hluti þeirra hefir verið þjóðnýtir menn, er hafa breytt út menningu í söfnuði sínum.

Ef menn reyna að gera sjer grein fyrir, hvernig ástandið myndi verða, ef skilnaður ríkis og kirkju yrði gerður, myndu sumstaðar, og jafnvel víða, rísa upp fríkirkjusöfnuðir. En hjá því verður þó ekki komist, að stærri eða smærri svæði verði algerlega kirkju- ok kennimannalaus, sumpart vegna áhugaleysis, sumpart vegna fjárskorts.

En í hinum mismunandi söfnuðum munu mismunandi trúarskoðanir verða ríkjandi, og því engum skóla fært að ala upp prestaefni, er hæf væru öllum söfnuðum.

Í væntanlegum ríkisskóla yrði ef til vill sú stefna kend, er meiri hluti landsmanna aðhyllist í þann og þann svipinn, en hann myndi þá eiga vísa mótstöðu frá svo og svo mörgum söfnuðum. —

Sumir söfnuðir hefðu ef til vill bolmagn til að halda uppi sjerstökum skólum til að ala upp kennimenn sína; aðrir yrðu að láta sjer nægja mentunarlitla leikprjedikara, og loks yrðu sumir að vera kirkju- og kennimannslausir.

Við þetta hygg jeg að alt safnaðarlíf færi á ringulreið, en það myndi verða til þess, að menningin gengi aftur á bak. Unglinga- og barnafræðslu er ekki svo háttað, að hún sje nægileg án stuðnings kirkjunnar.

Þess vegna álít jeg, þar sem engar óskir í þessa átt hafa komið frá þjóðinni, rangt, að vekja hana til að stíga það spor, sem jeg hygg að verða mundi henni til óheilla, og af þeirri ástæðu mun jeg greiða atkv. á móti till.