23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (3385)

59. mál, bann gegn refaeldi

Jón Jónsson:

Jeg vildi segja fáein orð út af umr. í gær í þessu máli. Hafa fram komið tvær stefnur í málinu, sem nefna má útrýmingarstefnu og uppeldisstefnu. Þessar stefnu hljóta, að meira eða minna leyti, að verða andstæðar. Þeir, sem frv. eru fylgjandi, eru auðvitað með útrýmingarstefnunni, og þó að frv. sje ekki nema lítill þáttur til útrýmingar, mun það þó gera stórgagn, og treystum við okkur ekki til að fara lengra í útrýmingunni með almennum lögum, þó að þörf væri á.

Það, að ýmsir menn hafa lagt stund á að ala upp refi til útflutnings síðar, hefir orðið til þess, að þeir hafa snúist á móti útrýmingu þeirra. En í því er hinn mesti misrjettur fólginn, að leyfa þessa refarækt, vegna þess, að í reglugerðum sumra sýslna er slíkt algerlega bannað. Í sumum sýslum má þannig rækta refina, en í öðrum ekki. Svo þegar það bætist ofan á, að refirnir sleppa úr gæslu, og ef til vill inn í þær sýslur, þar sem refarækt er bönnuð, þá verður misrjettið enn þá meira. Til sönnunar því, að fyrir refayrkjendum vaki ekki það, að útrýma refunum, má benda á, að það er þeim sjálfum í óhag.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vítti það rjettilega, sem fyrir kom á Mýrunum, að 11 refir sluppu úr fjárhúsi, og kvað það vanrækslu að kenna, ef það kæmi fyrir; og það er satt. En það kom þá upp úr kafinu hjá honum, að svipað væri ástatt þar vestra við Djúpið; þeir væru ekki árvakrari þar, því engir fengjust til að vinna refi þar, vegna þess, hve það væri illa borgað.

Málið er því fullkomlega tímabært, og ágengni refa ein aðalástæðan fyrir því, hve ilt er að búa í sumum sveitum landsins. Jeg hygg það ekki fjarri sanni, að árlega drepi refir 1% af öllu sauðfje í landinu. Ef þetta er rjett athugað, sem mun láta nærri, þá nemur það 353000 kr. skatti á þjóðina, eða meiri skatti en allur tóbakstollurinn, sem er þó hæsti tollurinn.

Um atvinnu af refaeldi er það að segja, að hún yrði ekki eins arðvænleg, ef refirnir væru geymdir þar, sem helst er von um að geta haldið í þá, þ. e. í traustum steinhúsum eða járnhúsum, þar sem refir geta að engu leyti aflað sjer fæðu, og verða eingöngu að lifa á því, sem þeim er skamtað. Refir eru þurftarfrekir. Eldi þeirra yrði því dýrt og drægi úr gróðanum. Vetrarveiði er erfiðleikum bundin, og ilt að fá menn til að leggja hana á sig.

En ef sú yrði nú reglan, að drepa tófur á grenjum, og svo væru menn hvattir með háum verðlaunum til að skjóta tófur á vetrum, jafnframt því sem eitrað væri á grenjum, þá mundi tófum áreiðanlega fækka. En á þessu hafa verið sífeld mistök. Og út af þeim mistökum, sem orðið hafa, að fullyrt er, að refir hafi sloppið sumstaðar, mikil gengd refa nú í seinni tíð o. s. frv., hafa verið gerðar samþyktir í sumum sýslum að banna refaeldi, en annarsstaðar ekki, t. d. þarna vestur frá. Þó var að heyra á hv. þm. Barð. (H. K.), að honum fyndust þungar búsifjar af tófunni, og því undarlegra af hinum vestanþingmönnunum að gera lítið úr tófubiti þar. Mjer þykir skrítið, ef sú tófa, sem ekki er í eldi, bitur ekki fje á Vestfjörðum eins og annarsstaðar. Vera má, að tófur flytjist inn í landið, en við það verður ekki hægt að ráða, enda verður eins fyrir því að gera það, sem hægt er, til að útrýma tófunni, þó að fáeinir menn í landinu hafi einhvern af því, að hún tímgist.

Það getur verið, að hægt sje að finna betri ráð en þetta til að útrýma refum, en við vildum fara þessa leið. Þetta bann gegn refarækt er vitanlega að eins einn þáttur í eyðslu refa, en jeg lit svo á, að það sje nauðsynlegur þáttur. — Þingið athugar náttúrlega málið, og þá er ekki óhugsandi, að það sjái nýjar leiðir og önnur ráð. En jeg held, að það hljóti altaf að hafa öfugar verkanir, ef á að fara eyða refum með refaeldi; jeg sje ekki annað en það sje Lokaráð, og það get jeg ekki aðhyllst.