13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (3394)

59. mál, bann gegn refaeldi

Sigurður Stefánsson:

Við, sem skrifað höfum undir brtt. á þgskj. 323 sem flm., höfum ekki gert það af því, að við teljum þá aðferð heppilega, sem hjer er viðhöfð, að setja hjer á þingi lög um þetta efni.

Eins og jeg tók fram við 1. umr. málsins, þá tel jeg það fulla tryggingu, að sýslunefndum sje heimilað að gera samþyktir um eyðing refa. Og þessa stefnu hefir líka háttv. nefnd samþ. nú með því að koma fram með till. í því skyni, að vekja sýslunefndir til meiri framkvæmda í þessu efni.

Við flytjum því ekki þessar brtt. af því, að við samþykkjum að fara frumvarpsleiðina, heldur til þess að bæta frv. og færa það í viðunandi form.

Jeg skal taka það fram, að ágreiningur er enginn milli okkar flm. og háttv. nefndar um það, að alt beri að gera til þess að útrýma refum. Ágreiningurinn er að eins um aðferðina. Og þar höldum við flm. brtt. fastlega við það, að einn öflugasti þátturinn í fækkun refanna sje einmitt sá, að leyfa mönnum að ala þá. Skal jeg nú færa rök nokkur fyrir þeim orðum mínum.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) gerði það að vísu við 1. umr., en jeg verð að fara frekari orðum um það, vegna andmæla hv. nefndar.

Þessi ótti, sem gripið hefir hv. nefnd, stafar af því, að hún telur víst, að refum hafi fjölgað mjög nú í seinni tíð, og kennir hún það eldinu. En jeg skal nú sýna fram á það, að síðan refaeldi byrjaði á Vesturlandi hefir tófu fækkað þar að miklum mun. Sjest það best á því, að fyrst framan af gátu þeir, sem við eldið áttu, fengið meira en þeir vildu af refum úr grenjunum þar í kring, en þegar fram í sótti fækkaði refum þar svo, að þeir urðu að leita til annara landshluta. Voru þá fengnir refir úr Skagafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslum, Múlasýslum og Árnessýslu, og meira að segja alla leið norðan af Kili. Meðan jeg fjekst við refaeldi fjekk jeg þaðan einu sinni 13 yrðlinga.

Það er því enginn vafi á því, að fjölgun refanna stafar af einhverju öðru en því, að þeir hafi sloppið úr eldinu. Og jeg þori að fullyrða, að enn þá sem komið er hefir þeim ekki fjölgað af því, því að þótt sloppið hafi einstöku sinnum refur, þá hefir eldið haft svo miklu meiri fækkun í för með sjer, að þess gætir ekki.

En ef þessi fjölgun er nú svo mikil, sem hv. nefnd heldur fram, þá má benda á aðrar orsakir til þess, meðal annars þær, að eitranir mishepnast meira og meira nú en áður.

Fyrst þegar byrjað var að eitra fyrir refi, þá hrundu þeir niður unnvörpum, en eftir því, sem lengur hefir verið eitrað, hefir refum þeim fækkað, sem farist hafa af þeim sökum. En það er sökum þess, að refir eru með vitrustu dýrum, og hafa þeir hætt að ganga að eitrinu, þegar þeir fóru að hvekkjast á því. — Sú hefir reynslan orðið á Vesturlandi.

Af þessari ástæðu er eðlilegt, að refum hafi fjölgað. Þess ber líka að geta, að grenjavinslu hefir hrakað óðum. Á Vesturlandi var næstum ómögulegt að fá menn til að liggja á grenjum um það leyti sem byrjað var á eldinu. — Skyttur voru fáar, og fengust ekki fyrir þá borgun, sem í boði var.

Hvorttveggja þetta hefir eðlilega orðið til þess, að refum hefir fjölgað.

Jeg hefi nýlega fengið brjef frá einni af bestu refaskyttunum vestanlands, sem lagt hefir að velli 40–50 refi árlega nú um langt skeið. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr brjefi þessu:

„Jeg vil strax taka það fram, að jeg álít mjög varhugavert að banna tófueldi; er hræddur um, að það geti orðið landbúnaðinum miklu dýrkeyptara en jafnvel þó að nokkrar tófur slyppu árlega úr heimaeldi, sem auðvitað þarf aldrei að koma fyrir, ef rjett er að farið. Áður en farið var að ala tófur var svo komið, að grenjaskyttur, sem að nokkru gagni voru, fengust ekki, og voru alls ekki til í jafnvel mörgum samliggjandi sýslum, og voru því oft mjög mikil vandræði með að fá af ráðinn grenjabít, ef upp kom, en nú eru allvíða til sæmilegar grenjaskyttur, en þær mundu smám saman hverfa, ef kaupið yrði einungis það, sem sínkar sveitarnefndir ættu að grúta úr sjer; jeg þekki það nokkuð af 30 ára reynslu. Eyðing refa horfir alt öðruvísi við nú en þegar byrjað var að eitra, og nokkuð lengur fram eftir. Þá var hægt að strádrepa tófuna á stórum svæðum, enda var það ósvikið gert. Það varð mjög víða svo lítið um tófur, að hún hafi yfirfljótanlega nóga veiði og þurfti ekki að „bíta“ eða veiða sauðkindur, en það gerir hún víst sjaldan fyr en í harðbakka slær.

En menn hafa ekki varað sig á því, að jafnframt og tófan hefir verið drepin á eitri ár frá ári, þá hefir tófukynið smám saman breyst, þannig, að þau dýrin, sem hneigðust voru fyrir að eta hræ, og um leið óhneigðust til veiða, drápust, en bestu veiðidýrin, tortrygnustu og um leið grimmustu dýrin, urðu eftir árlega og juku kyn sitt.“

Það, sem hann segir enn fremur um eitrunina, hljóðar svo:

„Jeg er því alveg sannfærður um, að það er ekki eitrinu að þakka, að landið er ekki orðið fult af dýrum og bitvarg, heldur grenjaskyttunum og yrðfingatekjunni, enda er jeg sannfærður um. að góð grenjavinsla er hollasta útrýmingaraðferðin; aðalgaldurinn er sá, að drepa fullorðnu dýrin, en setja þau ekki á ár frá ári, því að veturgömul dýr munu sjaldan bita mikið framan af fyrsta grenjatímanum. Jeg tel því mjög nauðsynlegt að hlynna sem allra best að grenjavinslunni og leita allra mögulegra ráða til þess að fá hana sem allra fullkomnasta, en það verður aldrei gert að eðlilegu gagni með því að banna alla arðsvon af yrðlingunum.“

Þetta segir nú skilorður og gætinn maður, sem fengist hefir við eyðingu refa um 30 ára tíma.

En til árjettingar því, sem hann segir um það, hve þýðingarmikil grenjavinslan sje, vil jeg taka það fram, að jeg er þess fullviss, að hún er eina framtíðarviðleitnin, sem duga má til útrýmingar refunum.

En til þess að fá henni framgengt, og hægt sje að fá refaskyltur, verða þær að hafa von um eitthvað verulegt í aðra hönd. Og þar sem þeim nú er boðið 15–30 kr. fyrir hvern yrðling, þá býst jeg við, að sveitar- og sýslunefndir mundu hugsa sig um tvisvar áður en þær byðu svo há verðlaun.

Hitt mundi að minni hyggju verða ofan á, ef bannað yrði eldið, að kaupið fengist ekki nógu hátt, og grenjavinsla dytti því úr sögunni.

Önnur besta refaskyttan þar vestra hringdi mig upp í gær, og komst hann meðal annars svo að orði: „Nú ætlar þingið víst að fara að banna refaeldi, en það skal jeg segja þjer, að þá hreyfi jeg hvorki hönd nje fót til refaveiða framar, jafnvel þótt mjer verði boðið þrefalt eða fjórfalt kaup við það, sem verið hefir.“

Sú skytta hefir haft miklar tekjur af því að selja yrðlingana, og svo mun vera um fleiri.

Það er því enginn efi á því, að yrðlingatekjan hefir átt drjúgan þátt í eyðingu refanna, og þá tel jeg ver farið en heima setið, ef tekið er fyrir grenjavinsluna með því, að banna refaeldið.

Mjer dettur í hug, í sambandi við þetta, dálítil saga úr Skagafirði, sem jeg heyrði í mínu ungdæmi. Á Skagaheiði var mjög mikið um refi, og hafði ein af bestu skyttum hjeraðsins verið þar að veiðum og orðið vel ágengt. En á manntalsþingi í Skefilsstaðahreppi varð þráttan mikil milli skyttu þessarar og hreppstjórans. Hafði skyttan gert hærri reikning en hreppstjóri vildi borga. Loks komst það svo langt, að leitað var úrskurðar sýslumanns, sem þá var hinn góðfrægi maður, Eggert Briem. Þagði hann við um hríð, en mælti síðan: „Gerið þið vel við hann Sigurð Víglundarson, svo að hann hætti ekki að skjóta.“

En svo brá við, að þingheimi snerist hugur, og var reikningurinn samþyktur í einu hljóði.

Þeir sáu það, sem rjett var, að ekkert var líklegra en að maðurinn mundi hætta að skjóta, ef honum væri ekki greitt sæmilega fyrir, en þá myndu þeir bráðlega hafa sjeð sína steng upp reidda, þar sem þetta var eitt af mestu refahjeruðum landsins.

En annars má geta því nærri, að hreppsnefndir eða sýslunefndir geta ekki ákveðið svo hátt kaup, að það nemi 15–30 kr. á hvern yrðling. Hingað til hefir það verið að eins frá 50 au. upp í 2 kr., og í allra mesta lagi komist upp í 4 kr.

Þess verður að gæta, að grenjavinslan fellur á þann árstíma, þegar mestar eru annir og hægast um vik að fá hátt kaupgjald. En því meiri agnúar verða á því, að fá færa menn til grenjavinslunnar, þegar arðvonin af yrðlingunum er af tekin.

Mjer finst það eitt af mikilvægustu velferðarmálum landbúnaðarins að vinna að eyðingu refa, en þessi aðferð, sem frv. fer fram á, miðar alls ekki til þess. Mestar tekjurnar af grenjavinslunni eru yrðlingatakan, eða hið afarháa verð, er refaskytturnar fá fyrir yrðlingana hjá þeim, er refarækt stunda. Ef því frv. yrði samþ. óbreytt, yrði sú afleiðingin, að grenjaskyttur yrðu að mestu leyti sviftir atvinnunni, og er því ekki rjett komist að orði í frv., að „einstakir“ menn geri sjer þetta að atvinnu, því svo má heita, að fjöldi manna um land alt hafi hag af þessum nýja atvinnuvegi. Þetta vona jeg að allir gætnir og góðir bændur athugi, er þeir fara að greiða atkv. um frv. Sömuleiðis vona jeg, að þeir ætli okkur, sem refaeldi viljum leyfa, ekki svo vondar hvatir, að við viljum fjölga refum, því við lítum svo á, að með refaeldi sje fundinn besti vegurinn til að eyða þeim, og við álitum, að refaeldið veg; svo mikið í þessa átt, að það sje betra en aðferð frv., jafnvel þó svo kunni til að takast, að einn og einn refur sleppi úr eldi, en það er alhægt að búa svo um hnútana, að það komi ekki fyrir. Eins og kunnugt er, hefir refarækt verið stunduð í Norður-Ameríku, og hafa menn þar girt margra fermílna stór svæði og gengið svo tryggilega frá, að ekkert dýr hefir sloppið; kemur þó snjór þar, engu síður en hjer. (P. O.: Geta refirnir ekki grafið sig undir girðinguna?). Nei, það geta þeir ekki, því að botninn er sementaður, og girðingin svo úr garði gerð, að þeir geta hvorki komist undir hana eða yfir, en líklega hefir kofi mannsins, sem misti 11 refina í Mýrasýslu, ekki verið sementaður. Þessi aðferð hefir verið reynd á einum stað í Dalasýslu og gefist vel.

Maðurinn sami og jeg las brjefkaflann eftir gengur svo langt, að hann telur það öruggasta ráðið til að fækka refunum, að hafa refaeldi í hverri sýslu, og er það þó í alla staði skýr og glöggur maður.

Jeg verð því að álíta, af því, sem sagt hefir verið, að hræðslan við fjölgun refa af völdum refaeldis sje ekki á neinum rökum bygð. En þó nú svo hafi farið, að nokkrir refir hafi sloppið á Vesturlandi úr eldi, þá er það þó mjög ótrúlegt, að á örskömmum tíma fjölgi af þeim orsökum refum stórkostlega á Norður- og Austurlandi. Jeg tel miklu meiri líkur til, að refum hafi fjölgað sökum þess, að grenjavinsla er víða í þessum landshlutum komin í mestu vanrækslu, og tel jeg einu vonina til, að hún aukist aftur, arðsvonina, er fylgir því að vinna grenin, þar sem hægt er að koma yrðlingunum í peninga, með því að selja þá til þeirra, er refaeldi stunda.

Þá er það ekki rjett hjá hv. frsm. (J. J.), í nefndarálitinu, að með refaeldinu sje það ekki lengur markmiðið að eyða refum, heldur að fjölga þeim. Þeir, sem ala refina, gera það til þess að lóga þeim síðar, og síst getur refum fjölgað þar, sem refir eru drepnir hundruðum saman árlega, eins og gert hefir verið með refaeldinu á Vesturlandi, þar sem áður var orðið mjög lítið um refaeyðing. Jeg vil auðvitað ekki neita því, að refir geti sloppið úr girðingu eða eyjum, en það verður hrein undantekning, þegar þess er gætt, hve arðsvonin er mikil af hverjum ref, þeim sem ala; fyrir hann geta þeir fengið 80–300 krónur, eins og verð er nú. Geta því allir farið í sinn eigin barm og athugað, hvort hagsvonagát þeirra mundi ekki kenna þeim að gæta vel þessara alidýra.

Háttv. frsm. (J. J.) gerði þá áætlun við 1. umr., að 1% af sauðfje landsins yrði tófunni að bráð. Þetta er nú ekki nema ágiskun, en enn þá meiri ágiskun er þó það, að ætla, að alt þetta bit stafi af völdum refa, er sloppið hafa úr eldi. Hjer er ekki heldur um arðsvon að eins örfárra manna að tefla, heldur líka allra þeirra, sem fást við grenjavinslu, og þeirra manna má landbúnaðurinn síst án vera. Verður miklu fremur að hvetja þá á allan hátt að leggja sig sem mest eftir grenjavinslu, því það er íþrótt, sem ekki verður lærð á skömmum tíma, fremur en aðrar íþróttir; þarf grenjaskyttan bæði að vera ágætur skotmaður, og svo verður hún að þekkja dýrið, hvernig það hagar sjer. Er það mikið mein landbúnaðinum, að hjer eru alt of fáar góðar grenjaskyttur.

Jeg heyrði því miður ekki helminginn af ræðu hv. frsm. (J. J.), því bæði er, að jeg er farinn að heyra ver en jeg gerði, og svo er oft svo mikill hávaði í þessari deild, að varla má heyra manns mál. Þó heyrði jeg, að hv. frsm. (J. J.) var að tala um, að mjög mætti fara í kring um ákvæðin á þgskj. 323. Það er að vísu satt, því það má fara í kring um öll lög, en ef fara má í kring um þessi ákvæði, þá má engu síður fara í kring um reglugerðir sýslnanna. Það er heldur engin gagngerð ástæða móti lögum, að hægt sje að fara í kring um þau, því varla munu þau lög verða samin, sem slíkt megi ekki segja um.

Þá vil jeg lýsa því yfir, að jeg og meðflm. mínir munum taka öllum breytingum og bendingum, sem miða til bóta, því það má vera, að breytingartill. á þgskj. 323 sjeu ekki svo vel úr garði gerðar, að ekki megi bæta þær. Mundi jeg vera með að athuga slíkar breytingar við 3. umr., því jeg vil fyrir alla muni, að samkomulag fáist í þessu máli. Við erum hvort eð er allir á eitt sáttir um það, að refum beri að eyða eftir föngum; okkur skilur að eins á um, hvaða leið beri að fara. Er jeg mótfallinn þessari svo kölluðu bannstefnu, sem er af sama toga spunnin og aðrar líkar stefnur, sem jeg veit að háttv. frsm. (J. J.) er ekki með. Úr því að á að banna eldi refa, af því að þeir kunni að sleppa, er eins vel hægt að segja, að rjett sje að banna manni að fara með byssu, af því að hann getur slasað sig á henni. (P. Þ.: Bann, eins og t. d. að gefa æðaregg?). Það veit jeg ekki til að sje neinn gróðavænlegur atvinnuvegur, að gefa æðaregg.

Þá vil jeg geta þess, að villur nokkrar hafa slæðst inn í breytingartill. á þgskj. 323. — Á t. d. í 2. tölulið að vera „hreppstjóri“ í staðinn fyrir „hreppstjórn“. Í 4. tölulið, við 4. gr. frv. er það villa, að „framan við greinina bætist“; á að standa „ný grein“.

Þó jeg heyrði ekki mikið af ræðu hv. frsm. (J. J.), heyrði jeg hann þó segja eitthvað á þá leið, að yrðlingarnir gætu sloppið er verið væri að flytja þá í eldi, víðs vegar af landinu. Getur þetta komið fyrir að vísu, en þó tel jeg það mjög hæpið; er bæði, að þessir veslingar eru svo að segja ósjálfbjarga, sökum þess, hversu ungir þeir eru, og svo er eftirlit með þeim mjög strangt. Hitt veit jeg aftur á móti, að ekki er það bannað í frv. nefndarinnar, að grenjaskyttur ali yrðlinga, meðan á grenjavinslu stendur, og veit jeg til þess, að þeir hafa frá þeim sloppið. Í refareglugerð fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu, sem jeg samdi löngu áður en refaeldi byrjaði, var sett ákvæði um, að það varðaði 50 kr. sekt, ef refir slyppu úr eldi. Annars má telja það illa meðferð á skepnum, hvernig farið var með þessi grey á grenjunum, því þeir voru hafðir til þess að kreista þá og klípa á grenjunum, svo að foreldrarnir, sem ekki þoldu að heyra kveinstafi afkvæma sinna, kæmu í skotfæri og yrðu drepnir.

Þá er líka í brtt. okkar talað um að hafa megi refaeldi í eyjum og hólmum í sjó úti. Jeg get frætt hv. þm. um, að allan þann tíma, er jeg hafði refaeldi í Vigur, kom það ekki fyrir, að einn einasti refur slyppi. Kom það að vísu tvisvar fyrir, að lagði milli lands og eyjar, en aldrei bar það svo bráðan að, að ekki ynnist tími til að drepa refina áður en fulllagt var. Mjer er heldur ekki kunnugt um, að áður en refaeldi hófst á Vesturlandi hafi þar verið lógað alt að 400 refum á ári, en það hefir komið fyrir nú á síðustu árum. þætti mjer gaman að sjá til samanburðar skýrslur úr sýslum, þar sem ekkert refaeldi er, um fjölda þeirra refa, sem drepnir hafa verið. Jeg mun ekki taka það nærri mjer, þótt till. mínar verði feldar, en jeg tel það illa farið fyrir landbúnaðinn. En þó nú þessar brtt. falli, þá gleð jeg mig við þá von, að brtt. við þingsál. verði samþ., og að ekki verði tekið það sjálfstjórnarvald af sýslunefndum, er þær hafa. Liggur það líka í augum uppi, að ef trúa má þeim fyrir að sjá um grenjavinslu, þá má líka trúa þeim fyrir að sjá svo um, að refar sleppi ekki úr eldi.