02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (3411)

59. mál, bann gegn refaeldi

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

„Til þess eru vond dæmi að varast þau“, og vil jeg gera mitt til, að ekki verði fetað í fótspor hv. Nd., hvað langar umr. um þetta mál snertir. Mjer má persónulega á sama standa, þótt málinu verði vísað til stjórnarinnar. En ekki ætti það að verða ofurefli hvaða stjórn, sem svo kemst að völdum, að spyrjast fyrir hjá sýslunefndum um málið, og vinna úr svörum þeirra. Það má vera, að óþarfi sje að nefna „sjerfræðinga“ í þessu sambandi, eins og gert er í dagskránni, en ekki skaðar, þótt það verði gamansömum mönnum að umræðuefni. í frv. þykir mjer kenna fullmikillar harðdrægni gagnvart mönnum, sem refaeldi stunda, og læt jeg mjer því vel líka, ef dagskráin verður samþ.