04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

33. mál, tollalög

Matthías Ólafsson:

Jeg hefði getað sparað mjer að standa upp, því að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er nú nokkuð búinn að upplýsa hv. þm. Dala. (B. J.) um villu hans viðvíkjandi prímusum og steinolíu. Það er rjett, að það má vel kveikja á prímusum með steinolíu, en það eyðileggur andrúmsloftið svo, að þar verður blátt áfram ólifandi. Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir sýnilega ekki verið í húsi, þar sem kveikt er með steinolíu á eldfærum þessum dag eftir dag. Það er víst, að ef hreint loft er eitt af brýnustu lífsnauðsynjum mannkynsins, þá er ekki ráðlegt að kveikja á prímusum með aðferð hv. þm. Dala. (B. J.). Auk þess er það rjett, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, að með þessari kveikingaraðferð eyðileggjast prímusar miklu fyr.

Þá er það hv. sessunautur minn (M. P.) Það er mikill misskilningur, ef hann heldur, að jeg myndi heldur vilja tolla þetta eldsneyti, ef það væri notað í sveitum. Mjer er það nóg, ef menn alment sjá sjer hag í því að nota suðuspíritus til brenslu, hvort sem þeir eru til sjávar eða sveita. Vildi jeg því undir öllum kringumstæðum afnema þennan toll. En sjerstaklega nú, þegar eldsneyti er svo dýrt, að það gleypir stórfúlgu af tekjum almenningsmanna, þá er það blátt áfram samviskusök að leggja þennan toll á. Það dregur sig saman, er þessi skattur er á hverjum lítra. Það mun láta nærri, að það leggi á mörg heimili í Reykjavík aukin útgjöld svo hundruðum króna skiftir.