21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í C-deild Alþingistíðinda. (3525)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg get verið stuttorður, en ræða hv. þm. Ísaf. (M. T.) gefur mjer tækifæri til að segja nokkur orð. Hv. þm. (M. T.) sagði, að jeg hefði verið andvígur brtt. um að leggja skatt á landbúnaðarafurðir. Hv. þm. (M. T.) hefir ekki fylgst með, því að jeg lýsti því skýrt og skorinort yfir, að jeg mundi ekki leggja stein í götu brtt. Fyrir núverandi stjórn hefir það vakað, að halda jafnvæginu milli þessara atvinnuvega með samsvarandi sköttum á afurðir beggja; t. d. er komin fram till. um að hækka ábúðarskattinn. Ef komið er nálægt síldinni, er eins og komið sje við hjartað í háttv. þm. Ísaf. (M. T.), en hann er ekki eins viðkvæmur, þótt hreyft sje við landbúnaðinum.

Mjer er stór ánægja að því, að menn græði á síld, og vildi óska, að menn græddu sem mest, en jafnframt hafa augu mín opnast fyrir því, að þeir, sem græða, þola að greiða skatta. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) þótti skrítið að leggja skatt á tap manna, en talaði í sömu andránni um skatt á síld, hverjir skattar kæmu niður á henni, og þá mest um tekjuskatt, en einmitt sá skattur sýnir ágóða, og samrýmist því illa hinum eilífa barlóm um tapið. — Jeg sje ekki ástæðu til að þreyta lengri umr. um málið.

Stjórnin á ekki sök á, að titill þessa frv. er orðinn sá, sem hann nú er.

Hv. Nd., átti þessa breytingu.