08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í C-deild Alþingistíðinda. (3534)

34. mál, heilbrigðisráð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get látið mjer nægja, að því er til þessa frv. kemur, að vísa til athugasemdanna við það, og þá sjerstaklega brjefs landlæknis og læknadeildar háskólans um þetta mál. Hygg jeg, að þar sjeu gefnar nægilegar ástæður fyrir því, að rjett sje að breyta þannig til um heilbrigðisstjórn landsins, sem hjer er farið fram á í frv. Það er ekki ætlast til, að þetta kosti landssjóð neitt gífurlega mikið, en mjög líklegt, að framkvæmdarstjóra heilbrigðismálanna verði að því mikill styrkur, að hafa sjer til aðstoðar 2 menn, sem læknadeild háskólans kýs.

Það, sem ætti að mæla með þessu, er, að líklega yrði borið meira traust til stjórnar heilbrigðismálanna en þegar einn maður hefir allan veg og vanda, því að það er oft svo um ráðstafanir í heilbrigðismálum, að mjög er um þær deilt. Er það því rjettara, að þar vinni að þrír menn en einn.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en er í nokkrum efa um, hvaða nefnd eigi um það að fjalla. Býst jeg þó við, að það sje rjettast, að formi til, að vísa því til allsherjarnefndar, en hins vegar virðist það ekki óheppilegt, og mætti vel til sanns vegar færa, að það væri látið fara í launamálanefndina, því að þar á sæti eini læknirinn í þessari deild.