21.08.1919
Efri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

7. mál, landamerki o. fl.

Frsm. (Magnús Torfason):

Að því er ástæður þær snertir, er mál þetta varða, er ekki þörf langrar ræðu: nægir um það að vísa til nefndarálitsins og greinargerðar þeirrar, er fylgir frv. Jeg mun því að eins gera grein fyrir brtt. nefndarinnar.

1. brtt. er um það að þegar menn þeir er sýslumenn nefna greinir á um oddamann, þá nefni ráðherra oddamanninn, og er það samskonar ákvæði og gildir í ábúðarlögunum um tilkvaðning varaúttektarmanns.

Brtt. við 2. gr. er til þess ger, að ekki þurfi rekistefnu til að ná inn gjöldum þessum, og því gert að skyldu, að þau sjeu afhent hreppstjóra áður en hann athugar skjölin.

Þriðja brtt. er málrjetting, er ekki þarf skýringar.

Brtt. við 7. grein er efnisbreyting eins og greinin er orðuð, mætti líta svo á, að afglöp embættismanna um þetta ættu að útkljást sem lögreglumál, en það er ekki ætlunin, heldur eiga þau afglöp, eins og aðrar embættisafglapanir, að dæmast eftir hegningarlögunum.

Brtt. 5. a. er borin fram til að fyrirbyggja það, að menn eigi í landaþrætum án þess, að það, sem um er deilt, skifti nokkru máli, því er valdsmanninum ætlað að meta það, svo einber hjegómamál sjeu ekki á ferðinni. Þessi grein er undantekning frá þeirri reglu, að menn ráði sjálfir málum sínum því hjer er það gert valdsmanni að skyldu að setja niður landamerkjadeilur. Sjálfsagt munu vera skiftar skoðanir á því, og misjöfn þörf fyrir það í hinum ýmsu umdæmum, en víða munu slík mál lifa enn, og nefndin leit svo á, sem þetta ákvæði væri yfirleitt fremur til bóta.

Þá er brtt. 5. b. Það vantaði ákvæði um. hvernig skyldi haga borgun fyrir þetta og er hjer ákveðið eins og sjálfsagt er að valdsmaður ákveði það ef aðiljar verða ekki ásáttir. Á þessum ferðalögum geta valdsmenn ekki ferðast eftir hreppstjórataxtanum, og ferðalögin geta oft orðið dýr. t. d. ferðir á mótorbát, þar sem fá verður bátinn til að bíða eftir sjer. En allan slíkan ferðakostnað eiga aðiljar að borga. En út úr þessum kostnaði geta risið deilur, þótt sæst verði á málið sjálft, og er því rjett, að kostnaðinum eingöngu verði áfrýjað, og að því lýtur 6. brtt. nefndarinnar.

Sjöunda brtt. er málbreyting; er hún gerð til þess, að ekki sjeu tvær endasetningar í sama málslið.

Þá leggur nefndin til, að nafngreining umboðsmannsins verði færð í fasteignaskrá, en ekki í landamerkjabók þá, er færð hefir verið og liggur við embættin. Sú færsla er án efa miklu hentugri; hin yrði ruglingsleg.

Níunda brtt. a. og b. eru gerðar með tilliti til þess, að Alþingi hefir afgreitt lög um hæstarjett.

Fleira tel jeg ekki þörf að taka fram að svo stöddu.