17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (3634)

44. mál, rannsókn til undirbúnings virkjunar Sogsfossanna

Flm. (Bjarni Jónsson):

Þetta frv. er líka sama sem einn kafli af þessum sama lagabálki, og get jeg því að miklu leyti látið mjer nægja það, sem jeg hefi um heildina sagt í aðalatriðum.

Jeg vil þó að eins geta þess, að þar sem Sogið er auðsjáanlega ódýrast í virkjun, og liggur næst Reykjavík, þá mun líka ódýrast að taka það til notkunar til almennra þarfa, svo sem er ljósa-, hitunar- og smáiðjuþörf. Þess vegna er það skoðun meiri hl., að fyrst sje að rannsaka, hversu til hagar, hve dýr verði virkjun þessa vatnsfalls, hvernig hún muni borga sig, svo að ljós- og hitaþörf landsmanna sje þá fylt betur, og sá vinnukraftur, er þá fæst ódýrari en annars. Þetta þarf alt nákvæmrar rannsóknar við og mælinga. Ekkert má gert fyr en fengin er nákvæm áætlun um virkjun vatnsins og orkuveitur allar, eður þráðlagningar til þeirra staða, sem aflið skal nota. Þetta verður að gera á undan öllum framkvæmdum, og hygg jeg þess vegna alveg nauðsynlegt, að slíkt frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Jeg skal geta þess um leið, að jeg hefi ætíð haft þá skoðun, að aldrei verði tryggilega frá þessu gengið, nema stjórnin fái sjer æfðan verkfræðing til þeirra hluta frá sænsku stjórninni, sem verið hefir við eitthvert fyrirtækja þeirra, sem sænska stjórnin á við Porjus, Elvkarleby og víðar. Á hinum fyrnefnda stað hefir sjerstaklega verið mikið unnið. Er þar tekinn kraftur til að reka járnbrautir í Norrland. Þeir menn, sem að slíkum fyrirtækjum hafa starfað, vita nákvæmlega, til hvers þau geta leitt, og þessir menn geta enga freistingu haft til að segja íslensku stjórninni rangt til. Yrðu henni væntanlega ljeðir menn af vatnastjórninni sænsku (Vattenfallsbestyrelsen), ef þess væri leitað. Það borgar sig vel að gjalda slíkum manni kaup. Hans er brýn þörf, því að hvorki jeg nje hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) erum svo gáfaðir, að geta gefið um þetta fullnægjandi ráð, þótt við höfum verið í þessari fossanefnd. Jeg veit um einn Íslending, sem verið hefir í Svíþjóð og Noregi og starfað við slíkt. Er það ungur gáfumaður, Steingrímur Jónsson, prests í Gaulverjabæ, Steingrímssonar. En jeg myndi telja það heppilegast, að stjórnin hefði á að skipa svo góðum manni og æfðum, sem kostur er á. Þá yrði auðvitað hægara á eftir að taka þá ákvörðun, hvort ríkið skuli virkja þegar, eða ekki.

Annars vænti jeg, að máli þessu verði vísað til sömu nefndar og hinum.