08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í C-deild Alþingistíðinda. (3718)

87. mál, dýralæknar

Einar Jónsson:

Jeg er samþ. hv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að frv. þetta, um fjölgun dýralækna, sje algerlega óþarft og komi ekki að neinum notum. Það, að ætla sjer að stofna þrjú embætti í einni starfsgrein, vitandi það, að engan mann er að hafa — jafnvel ekki á nálægum tíma — í þessi embætti, það tel jeg óþarft örlæti á embættafjölgunum.

Hins vegar álít jeg, að námsskeið, þar sem veitt væri tilsögn í algengustu alidýrasjúkdómum, gætu komið að góðum notum. Jeg álít, að dýralæknar ættu að gera meira en þeir hafa hingað til gert að því, að gefa fólki leiðbeiningar í skrifuðum ritum um meðferð alidýrasjúkdóma. Dýralæknar verða aldrei að almennum notum fyr en fenginn er 1 dýralæknir í hvern hrepp; en hve nær skyldu verða tök á slíku? Þeir verða ekki notaðir af öðrum en þeim, sem búa í grend við þá. Það er auðskilið mál, að þeir, sem búa langt frá lækninum, ná ekki til hans þegar gripur sýkist svo hættulega, að mjög skjótra aðgerða þarf.

Þess vegna tel jeg mikla bót vera að námsskeiði, og það væri sannarlega ekki um skör fram, þó að dýralæknar þeir, sem til eru í embættum, tækju að sjer að annast 1–2 mánaða námsskeið á ári. Dýralæknafjölgun væri helbert kák fyr en hægt væri að fá álíka marga dýralækna og mannalæknar eru nú í föstum embættum, og helst miklu fleiri. Jafnvel þeim mun fleiri, sem gripir eru fleiri en menn.