30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í C-deild Alþingistíðinda. (3814)

69. mál, almennur ellistyrkur

Kristinn Daníelsson:

Jeg get tekið undir með háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, að nauðsyn sje á að hækka gjöldin til sjóðsins. En það er rjett hjá hv. 4. landsk. þm. (G. G.), að gjaldið má ekki hækka að miklum mun, þar sem það er nefskattur, er kemur jafnt niður á ríka og fátæka; jeg hallast því að því, að takmarka beri upphæðina. Vil þó ekki hefta framgang málsins og greiði því þess vegna atkv. mitt við þessa umr.; vildi þó ekki hækka upphæðina svo mikið, veit, að það fellur fátækum almenningi erfitt nú eftir stríðið, meðan dýrtíðin helst.

En það, sem aðallega kom mjer til að biðja um orðið, er brtt. á þgskj. 168. Jeg tel ekki rjett að hafa lágmarkið svona hátt; sjerstaklega tel jeg 40 kr. lágmarkið of hátt sett. Kýs jeg helst, að úthlutunarnefndin sje látin að mestu sjálfráð og henni gefnar óbundnar hendur, frekar en kostur er, ef lágmarkið er lögbundið Mjer er vel kunnugt um verkun 20 kr. lágmarksins; það var ekki hægt að veita þeim öllum styrk, sem áttu hann skilið, og var það okkur þannig til baga, því að við urðum altaf að útiloka 3–5 á ári, sem sótt höfðu um styrkinn og áttu hann skilið. Og þeir, sem ekkert fengu, voru sárhryggir út af því að koma ekki til greina. Jeg tel þennan 20 kr. styrk, sem hver átti að fá, engan verulegan styrk, heldur nokkurskonar glaðning. Jeg vona því, að lágmarkið verði fært niður.

Verði brtt. samþ. nú, áskil jeg mjer að koma með brtt. til 3. umr. um að færa lágmarkið niður, og jeg byggi á minni eigin reynslu.