10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í C-deild Alþingistíðinda. (3873)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Jón Jónsson:

Jeg get verið þakklátur hv. meiri hl. allsherjarnefndar fyrir meðferð hennar á þessu máli. Jeg hefi ekki miklu við að bæta hjá hv. frsm. (Þorl. J.). Jeg gat þess við 1. umr., að á aðalfundi sýslunefndar Norður-Múlasýslu í vor hefði verið með samhljóða atkv. skorað á þing og stjórn að stofna nýtt læknishjerað á Úthjeraði.

Með þeirri áskorun, sem samþ. var ágreiningslaust, er kveðin niður þessi till. hv. þm. Borgf. (P. O.), um að flytja lækninn að Brekku, niður í mitt hjeraðið, þar sem svo alment er óskað eftir sundurskiftingu Hróarstunguhjeraðs og sjerstökum lækni á Úthjerað. Þá er alveg útilokað samkomulag um að setja einn lækni í mitt hjeraðið. Þótt það hafi komið hjer fram á þingi áður, þá verður það að teljast óframkvæmanlegt, af því að hjeraðsbúar sjálfir álíta svo. — Það er því þýðingarlaust að tala frekar um þetta, nema þá til að reyna að spilla fyrir málinu. Hv. frsm. (Þorl. J.) hefir tekið það skýrt fram, hvílík sanngirni mæli með þessu, og eins hv. 2. þm. N.-M. (þorst. J.), svo að jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum að því. Þó vildi jeg geta þess, að við fyrir austan gætum, með sama rjetti og aðrir, komið fram með till. inn í fjárlögin um hjálp handa hreppnum þar til að vitja læknis, ef þetta frv. verður felt. — En mjer mundi þykja leitt að fara þá leið, líka vegna þess, að með því móti er engan veginn bætt úr þörfinni. Það getur staðið svo á, að læknishjálp komi um seinan, þó að fje væri veitt hreppum til að draga úr kostnaði. Það verður að leggja áhersluna á, að í lækni náist, þegar nauðsyn er fyrir hendi. Og jeg vil líka leyfa mjer að benda á, að ef þessir fimm hreppar, sem hjer eru svo illa settir, kæmu allir inn í fjárlögin með styrk til að vitja læknis, segjum 300 kr. hver, þá væri með því eytt alt að helmingi læknislauna. Er viturlegra og gagnlegra að stofna læknisembætti, því að þá er bætt að fullu úr þörfinni, en það væri alls ekki með hinu mótinu.