04.08.1919
Efri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það eru að eins örfá orð út af ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. P.).

Hann byrjaði með því að segja, að það orkaði mjög tvímælis, hvort stjórnin hefði átt að taka mál þetta í hendur sínar eða ekki. Mig furðar ekki á því, því fátt er hægt að gera, sem ekki orkar tvímælis.

Þá sagði hann, að sjer væri ekki kunnugt um að almennur vilji hrossaeigenda hefði knúð stjórnina til að taka að sjer einkasölu á hrossum. Þetta er líklega rjett. Jeg sagði aldrei, að almennur vilji hrossaeigenda væri fyrir hendi, heldur að fjöldi manna væri með því, og þá getur líka margt manna verið á móti því.

Einn nefndarmannanna upplýsti, að Sláturfjelag Suðurlands hefði fyrir hönd hrossaeigenda á því stóra svæði, sem það nær yfir, ýtt undir stjórnina að taka að sjer einkasölu á hrossum, og er jeg hissa, að hv. 1. þm. Rang. (E. P.) skuli ekki hafa vitað um þetta. (E. P.: Sláturfjelag Suðurlands sótti um að fá sjálft leyfi til að flytja út hross fyrir fjelagsmenn sína, en fór ekki fram á neina einkasölu).

Jeg er á gagnstæðri skoðun við hv. þm. um það, að stjórnin eigi ekki að taka á sig byrðar, þótt orkað geti tvímælis, ef hún er sannfærð um, að það sje þjóðinni til heilla.

Aðalskylda stjórnarinnar er að styðja að almenningsheill, og ef hún, í slíkum málum sem þessum, hyggur sig geta gert betur en aðra, er betra, að hún taki þau í sínar hendur, en að hún dragi sig í hlje, svo lítið sje hægt um hana að segja.