05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í C-deild Alþingistíðinda. (3918)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Eins og kunnugt er, er það oft vani, og heimilt að lögum, að gera fyrirspurn til landsstjórnarinnar um þau mál, sem almenning varða. Önnur aðferð hefir líka verið höfð, sem sje að spyrja stjórnina svo nefndan „eldhúsdag“. Þá aðferð tel jeg lakari, því að þá er stjórninni ekki gefinn neinn kostur á að undirbúa sig undir málin. Þessa aðferð tel jeg miklu kurteisari, því að með henni er stjórninni veitt tækifæri til þess að kynna sjer og undirbúa sig undir þau mál, sem um á að ræða. Hefi jeg því valið hana í þessu máli.

Eins og jeg mun síðar sýna fram á. hefir Árnesingum þótt misbrestur á því, hvernig sýslumannsembættið þar hefir verið rækt, og telja því ekki hafa verið gegnt eins og skyldi. Þetta má þó ekki skilja svo, að jeg eða þeir vilji segja, að þeir menn, sem farið hafa með embættið, hafi gegnt því ver en við var að búast, meðan þeir fóru með það, heldur telja þeir embættið hafa verið vanrækt með hinum tíðu mannaskiftum, og með því að láta sýsluna á stundum vera algerlega sýslumannslausa. Er von, að Árnesingar finni til þessa, þar sem þeir höfðu langan tíma búið við sama valdsmann, sem var mjög vinsæll af sýslubúum og hafði gegnt því embætti um mörg ár.

Eins og kunnugt er, var hr. Guðmundi Eggerz veitt Árnessýsla frá 1. júlí 1917. Ef jeg man rjett, tók hann ekki sjálfur við embættinu fyr en 1. ágúst sama ár.

Fjekk hann þann, er settur hafði verið þar á undan honum, til þess að þjóna embættinu þennan tíma. Er ekkert undarlegt við þetta, því nægar ástæður gátu verið fyrir hendi, svo að hann gæti ekki þegar tekið við embættinu. 1. ágúst tók svo hinn reglulega skipaði embættismaður við sýslunni, en þá mun hann hafa tekið sjer sumarleyfi og farið í kynnisför til fornra átthaga sinna. Meðan á því sumarleyfi stóð, var gamall hreppstjóri, mesti heiðursmaður í sinni grein, settur sýslumaður. Fóru þá að heyrast ýmsar raddir um það, að ilt væri að fá afgreidd ýms mál, er mikið lá á, því skjalasöfn sýslunnar lágu þá niður á Eyrarbakka. Var t. d. erfitt að fá veðbókarvottorð.

Þegar svo Guðmundur Eggerz kom úr sumarleyfinu, þjónaði hann embættinu í mánaðartíma, en var þá skipaður í fossanefndina. Fluttist hann þá búferlum hingað suður, og hefir ekki komið til sýslunnar síðan, því hann hefir ekki enn lokið þeim störfum.

Þegar sýslumaðurinn var skipaður í fossanefndina, segist hr. Páll Jónsson hafa leitað til hans og viljað fá samninga um það við hann, að vera settur sýslumaður meðan Guðmundur Eggerz væri að störfum í fossanefnd. En úr þessu varð þó ekki, því að þá hafði hann samið við hr. Boga Brynjólfsson um setninguna, og var hann settur til að gegna embættinu á eigin ábyrgð. Eins og mönnum mun kunnugt, er það vaninn, að sá, er settur er til að þjóna embætti í forföllum hins reglulega embættismanns, er settur á ábyrgð embættismannsins. Hr. Bogi Brynjólfsson þjónaði svo embættinu veturinn 1917–18 og fram til hausts 1918, að hann var skipaður sýslumaður í Húnavatnssýslu. Þá segist hr. Páll Jónsson hafa enn á ný farið til hr. Guðm. Eggerz og viljað fá starfa að gegna í Árnessýslu, og hafi það þá orðið að samningum með þeim, að Páll gerðist Guðmundar maður, og skyldi hann fá 2400 kr. árslaun. Skyldi hann vinna á sýsluskrifstofunni og vera settur annaðhvort á eigin ábyrgð eða á Guðmundar ábyrgð. Segist nú Páll Jónsson ekki hafa búist við öðru, og hvorugur þeirra, en að stjórnarráðið tæki það gilt, er gert væri, og setti sig til að þjóna embættinu, meðan sýslumanns misti við. Segir nú Páll Jónsson, að sýslumaður hafi farið þess á leit við stjórnarráðið, að hann yrði settur, en hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.) hafi þá færst undan því. Vildi sýslumaður þá fá að vita orsakirnar, en fjekk enga fullnægjandi skýringu hjá hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.). Hafi þá sýslumaður sent skriflega umsókn til stjórnarráðsins um, að Páll yrði settur. — „Hefir hann skýrt mjer,“ segir Páll, „svo frá, að dómsmálaráðherra hafi kveðið það sjálfsagt, að hann fengi slíka greinargerð.“ Þetta er nú skýrsla Páls Jónssonar, en ekki get jeg ábyrgst, hversu ábyggileg hún er. Segist Páll hafa farið sjálfur með brjefið til hæstv. dómsmálaráðherra (J. M.), en beint svar sje ekkert komið enn þá. Eftir að Bogi Brynjólfsson var farinn úr sýslunni, var það töluverðum erfiðleikum bundið að fá embættinu þjónað. Var enginn lögfræðingur settur til að byrja með, en úrslitin urðu þau, að Jón Einarsson, hreppstjóri í Mundakoti á Eyrarbakka, dugandi og ábyggilegur maður í sinni grein, var settur til að gegna embættinu, nema dómsmálunum. Jeg efast ekki um, að hann hafi gegnt því eins samviskusamlega og honum hefir verið frekast unt, en hann er ólögfróður maður, og því ekki starfinu fullkomlega vaxinn. Um þetta leyti voru aðrir settir til að gegna dómsmálunum. Var einn af aðstoðarmönnunum í stjórnarráðinu, Sigurður Lýðsson, sendur austur um haustið, til þess að þinga í málum, er lágu fyrir á Stokkseyri og dráttur hafði orðið á. Heyrði jeg því líka fleygt, að annar maður, Steindór Gunnlaugsson, cand. jur., hafi verið fenginn til að fara austur af hálfu stjórnarráðsins, en hann mun hafa snúið sjer að öðrum störfum. Er hjer var komið málunum, var á fjölmennum fundi á Eyrarbakka í okt. f. á. samþykt áskorun til stjórnarinnar um, að þessu yrði kipt í lag. Var áskorunin þess efnis, að stjórnin sæi um, að annaðhvort tæki hinn skipaði sýslumaður við embættinu og kæmi til sýslu sinnar, eða þá að hann segði embættinu lausu, svo að hægt væri að skipa annan, er gæti verið þar til frambúðar. Ekki var þessu sint, heldur þjónaði nefndur hreppstjóri embættinu fram í nóvemberlok. í byrjun desember, segir Páll Jónsson, að Guðmundur Eggerz sýslumaður hafi beðið sig um að fara austur á Eyrarbakka, „þar sem málið væri nú komið í það horf, að jeg (þ. e. Páll) gæti byrjað á störfum á skrifstofu sýslunnar; kvað hann skipunarbrjef mjer til handa, í einhverri mynd, mundi verða undirritað næsta eða næstu daga“. — Þetta er nú skýrsla Páls. Ber nú ekkert til tíðinda, og líður svo fram í miðjan mánuðinn. Þá segir Páll, að sýslumaður hafi skýrt sjer frá, „að styrfni nokkur og örðugleikar væru á því, að koma málinu í kring, en úr því mundi brátt rætast, og skyldi jeg biða rólegur.“ Eru þessi orð tilfærð úr skýrslu Páls. Liður nú og bíður fram í janúarmánuð. Þá segir Páll, að sýslumaður hafi sagt sjer, að hann hefði gert samning við Magnús Gíslason, cand. jur., um að gegna embættinu nokkra mánuði, og skyldi hann vinna á skrifstofunni hjá honum. Er Magnús Gíslason hafi tekið við embættinu, segist Páll hafa snúið sjer til hans, en þá hafi hann sagt, að hann hefði sjeð sjer fyrir annari aðstoð á skrifstofunni, enda væri hann settur upp á eigin ábyrgð, eins og Bogi Brynjólfsson hafi verið, og hefði Guðmundur Eggerz engin afskifti af embættinu, meðan hann gegndi því. Er nú Páll eystra nokkurn tíma, og vill fá leiðrjetting mála sinna, en hann fær hana enga, og snýr hann þá aftur til Reykjavíkur.

Í þessari skýrslu Páls Jónssonar kennir margra grasa, og biður Páll bóta fyrir hrakninga sína. Mun fjárveitinganefnd hafa athugað skýrsluna, og er það hennar að gera till. um það, hvort Páll skuli fá bætur fyrir hrakning sinn, er hann telur haft hafa í för með sjer efnatjón.

Í lok aprílmánaðar vill svo Magnús Gíslason losna, og tilkynti hann því stjórnarráðinu og sýslumanni, að hann mundi ekki gegna embættinu lengur en til maíbyrjunar. Eftir því, sem Páll Jónsson segir, er þá helst í ráði, að sýslumaður taki sjálfur við því og fari austur. Er þá líka ákveðið, að Páll Jónsson skuli vinna á skrifstofu hans, og skuli hann vera fulltrúi Guðmundar. Segir Páll, að stjórnarráðið hafi þá tekið vel í málið, enda er þá gefin út löggilding til handa Páli, þar sem hann er löggiltur fulltrúi Guðmundar Eggerz, og skuli hann hafa heimild til að annast öll almenn störf embættisins. Er þetta var ákveðið, voru þeir hvorugir heima, forsætisráðherra (J. M.) nje fjármálaráðherra (S. E.). Nú sýnist alt vera komið í lag, er sýslumaður tekur sjálfur við embættinu, eða hefir fulltrúa sinn, sem lokið hefir lagaprófi, til þess að þjóna því. En það fór nokkuð öðruvísi en á horfðist. Páll fór auðvitað austur, og var Magnús Gíslason þá að halda sýslufund, er Pál bar að garði, og ætlaði hann, að honum loknum, að sleppa embættinu, en Páll átti þá að taka við því fyrir hönd Guðmundar Eggerz, er var lasinn, þegar Páll lagði af stað, og treysti sjer ekki til að fara austur yfir fjall, því að veðrátta hafði verið slæm og vegir illir yfirferðar. — Að afloknum sýslufundi var í ráði að afhenda embættið í hendur Páli. En þegar til kastanna kom, hafði verið símað austur af stjórninni og Magnúsi Gíslasyni bannað að afhenda Páli plögg sýslunnar. Páll verður að fara aftur suður, en Þorsteinn Þorsteinsson, sem gegnir nú embættinu, var sendur austur. Þegar Páll var kominn suður, snýr hann sjer til stjórnarinnar, og hittir þar að máli dómsmálaráðherrann, sem þá var atvinnumálaráðh. (S. J.), því að hinn var þá erlendis. En Páll fjekk það svar hjá honum, að málið væri svo „juridiskt“, að hann treystist ekki til að taka neina ákvörðun í því. Þá fer Páll til skrifstofustjóra á 1. skrifstofu, en hann vísaði honum einnig frá sjer og sagði honum að snúa sjer til Guðmundar Eggerz.

Þetta er nú saga málsins. Mönnum leist svo til, að samtals hafi 13 til 14 manns þjónað Árnessýslu þetta tímabil, og stundum tveir í einu; annar annast dómsmál, en hinn framkvæmdamál.

Það þarf nú naumast að lýsa því, hversu þetta ástand er óheppilegt og óviðunandi í alla staði. Það er óheppilegt, að dómsmálin dragist til baga, eins og hjer hlaut að vera. Hitt er þó öllu verra, að málefni, sem varða sýsluna sjerstaklega, geta ekki orðið í því lagi, sem þau þyrftu að vera, þar sem sýslumaðurinn, oddviti sýslunefndar, er ekki viðstaddur. Það er ekki við því að búast, að ólögfróður maður, eða ókunnugur lögfræðingur, sem hefir verið skamman tíma við embættið, og því haft ónógan tíma til að kynna sjer málin, geti annast þau að fullu gagni. Enda er ekki heldur við því að búast, að þeir hafi jafnmikinn áhuga á, að vel greiðist úr málunum, sem maður, er væri fastur í embættinu og kunnugur högum sýslunnar, jafnvel þó að þeir vilji allir vel, sem jeg dreg ekki í efa um þessa menn.

Jeg veit ekki, hversu það dregst lengi, að hinn reglulegi sýslumaður snýr aftur að embætti sínu. Jeg veit ekki heldur, hversu sá maður verður lengi við embættið, sem nú gegnir því. Það er ekki mikil fjeþúfa að vera við embættið svona um stundarsakir. Störfin eru mikil; hinn setti verður að leggja töluvert í kostnað, svo að þessi embættisvíst verður honum fremur tap en gróði. Það er að minsta kosti sagt um einn hinna settu, að hann hafi skaðast um 500 krónur á embættisvistinni. Þegar hann kom að embættinu, var þar margt ógert. Hann gerði sjer far um að kippa þessu í lag, og varð að kaupa sjer aðstoð.

Sýslumaðurinn í Árnessýslu hefir verið vanur að þinga í síðari hluta maí og fyrri hluta júní. Nú hafa þinghöldin dregist fram undir lok júnímánaðar. Jeg segi þetta ekki til þess að ámæla þeim, sem nú annast sýslumannsembættið. Þessi dráttur er eðlilegur, því að þegar hann tók við embættinu í maí í vor, vantaði ýmsan nauðsynlegan undirbúning undir þinghöldin. Jeg býst við, að ekki sje auðvelt að neita því, hversu slíkt ástand sem þetta er óheppilegt, hvort sem það á sjer stað í Árnessýslu eða annarsstaðar. Og jeg áleit rjett, að þetta kæmi til athugunar þingsins, þeim til íhugunar, sem nú fara með stjórnina, svo að ekki lenti aftur í sama farinu.

Jeg hefi nú lýst, hvernig rekstri embættisins hefir verið varið. Jeg hefi ekki enn spurt hæstv. stjórn um, hversu lengi verður haldið í sama horfið. Það má vel vera, að ekki skifti miklu máli, þó að dráttur verði á því, að Guðmundur Eggerz hverfi að embættinu, ef sá, sem nú annast það, verður í því framvegis. En nú óska jeg að fá upplýsingar um þetta hjá stjórninni.