20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í C-deild Alþingistíðinda. (3943)

162. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki, held jeg, að svara neinu í síðari ræðu hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Það kom ekkert fram hjá honum annað en að það væri rjett, sem jeg sagði, að í raun og veru hafi ekki verið órjett að láta vera að áfrýja dómum til hæstarjettar í Kaupmannahöfn. Hitt verð jeg að láta liggja milli hluta, hvort hægt muni að áfrýja til hæstarjettar hjer á landi.

En það var að eins út af dæminu, sem hann tók um dómstjóra í hæstarjetti í Kaupmannahöfn, að jeg vildi taka fram, að það eru ekki alveg sömu ástæður hjer. Við vitum, að það var leyft hjer, og er enn að nokkru leyti, að dómendur yfirrjettar gefi sig við stjórnmálum, eins og aðrir menn. Og þeir mega að sjálfsögðu láta uppi álit sitt um mál og stefnur, og jafnvel segja, að þeim sje illa við jafnaðarmenn. — Það er ekki bannað hjá okkur, eins og það er í framkvæmd annarsstaðar. Það er ekki langt síðan, að yfirdómarar sátu á þingi. Nú og í framtíðinni verður þetta ekki. Enda þarf ekki að álíta, að dómur þeirra, sem þingmanna, um bannlögin, þurfi að snerta neitt þeirra dómhæfileika.

En það var annað, sem mjer datt í hug út af því, sem háttv. þm. (E. A.) sagði, að óleyfilegt væri dómstjóra að finna að dómi hæstarjettar. Það er náttúrlega mikill munur á hæstarjettardómara og aukadómara við yfirrjettinn, svo að engum mun detta í hug, að aukadómarinn skuli fara úr þeim dómi, þó að hann hafi fundið að dómum hans, nema hafi hann ætlað ofan hvort sem var.