16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (3962)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Frsm. (Gísli Sveinsson1):

Úr því að enginn kveður sjer hljóðs, ætla jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem er, því miður, ekki hjer viðstaddur. En þetta eru líka að eins almennar athugasemdir, og gerir því minna til, þó að hann heyri ekki mál mitt.

Hann talaði um það, að hjer væri að eins um það að ræða, að fram halda rjetti, sem væri einungis .,theoretiskur“. Þetta er að vísu rjett, en það raskar ekki því, að nauðsynlegt sje að útkljá málið eins og venjulegar rjettarþrætur, því að frá sjónarmiði meiri hl. er hjer um mikilsvert atriði að ræða, sem getur haft víðtækar afleiðingar. Þessi „theoretiski“ rjettur er aðalatriði málsins. Jeg hefi lýst yfir því áður, að jeg teldi þetta „theoretiskt“, og mjer fjell illa, að milliþinganefndin skyldi sundrast um þetta atriði.

En þá er spurningin, hvernig á að útkljá þetta þrætuefni. Meiri hluti samvinnunefndar taldi sjálfsagt, að það yrði útkljáð af þeim, sem fara með æðsta úrskurðarvaldið, sem æðsta dómi þeirra verður ekki áfrýjað.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði enn fremur, að hann yrði að vera þeirrar skoðunar, að minni hl. hefði rjett fyrir sjer í því, að landeigendurnir ættu afnotarjettinn. Hann nefndi eigi eignarrjett, heldur afnotarjett. En það er vafamál, að forsætisráðherra (J. M.) sje sammála minni hluta nefndarinnar í þessu, því ef á að draga þá ályktun af orðum minni hl., þá virðist hann halda því fram, að hjer sje um eignarrjett að ræða. En þrátt fyrir þetta voru svör hæstv. forsætisráðherra (J. M.) óvenjulega ákveðin, því að hann var ekki knúinn til að gefa þessa yfirlýsingu, nema þá af sinni eigin samvisku.

Það var ótvírætt rangt hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að sú stjórn, sem skipað væri af Alþingi að framkvæma eitthvað, eða fara í mál, yrði að vera samþykk annari hvorri niðurstöðunni. Hann virtist ganga út frá því, að hjer er um það að ræða að úrskurða, að ríkið ætti vatnsorkuna. En eins og gögnin benda til, er það ekki, heldur hitt, að það er óskað eftir úrskurði um, hver eigi vatnsorkuna, ríkið eða einstaklingar. Og eins og gefur að skilja, þarf sú stjórn, sem samkvæmt skipun þingsins á að fá þennan úrskurð, ekki að hafa neina ákveðna skoðun annarshvors aðilja. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þarf því ekki að hafa skoðun meiri hl. í milliþinganefndinni. Hann má eins hafa skoðun minni hl., sem hann sagðist heldur hallast að, því stjórnin sjálf á ekki að úrskurða neitt, heldur á hún að fá úrskurð dómsvaldsins um þetta vafaatriði.

Enda gefur það að skilja, að stjórnir verða oft að úrskurða og framkvæma mál, sem þær eru ekki sannfærðar um hversu rjett sjeu. Stjórnin ber enga ábyrgð á skipunum þingsins, en hins vegar ber hún ábyrgðina, ef hún óhlýðnast skipun þingsins.

Hæstv. ráðherra (J. M.) taldi ekki vera ástæðu til þess að taka þetta út úr, heldur vildi hann, að það væri tekið með í vatnalögin. Þar er því til að svara, að nefndin sá sjer ekki fært að koma með vatnabálkinn hjer inn á þing nú. Hins vegar var nefndin á því, að ekki væri úr vegi, að áður en vatnalögin væru sett væri kominn um þetta úrskurður frá þeim, sem bærir eru að skera úr í þessu máli, sem sje dómstólunum.

Úr því að jeg er staðinn upp á annað borð, skal jeg ljúka með því að segja fáein orð út af ummælum hv. 1. þm. S.- M. (Sv. Ó.), sem þó skulu ekki gefa honum neina sjerstaka ástæðu til að rísa upp aftur, ef ekki er eitthvað annað, sem hann ætlar að svara.

Hann sagði, og komst svo að orði, að þetta væri bein ránsferð á hendur einstaklingunum. Það er engan veginn rjett. Hjer er ekki um það að tala að taka af mönnum það, sem úrskurður er um að þeir eigi, heldur á að skera úr því, hvoru megin rjetturinn sje. Það mætti alveg eins segja um löggjöf á sumum öðrum sviðum, eða aðferð þá, sem minni hl. vill viðhafa, að þar sje um ránsferð að ræða. Hitt er og fullvíst, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) neitaði, að hjer er um mikla hagsmuni að ræða á báðar hliðar; því að eins er þetta mál jafnviðkvæmt og það er. Að vísu játaði hv. þm. (Sv. Ó.), að af hálfu einstaklinganna væri að ræða um hagsmuni. En því skyldi þá ekki líka vera um hagsmuni fyrir ríkið að ræða, sem sje þá, að það eigi tilkall til og umráðarjett yfir vatnsorkunni. Þessu er að því leyti eins farið með bæði heildina og einstaklingana, að geti þeir hagnýtt sjer orkuna, þá getur þjóðfjelagið það ekki síður.

Enn fremur sagði hv. þm. (Sv. Ó.), að hann teldi enga þörf á að halda áfram rannsókn á Sogsfossunum. Þar skal jeg vísa til þess, sem áður hefir verið tekið fram af meiri hl. nefndarinnar, að henni virtist þvert á móti þess vera full þörf. Og auk þess er það álit vegamálastjóra, sem hefir fengist við rannsókn og mælingar á þessum fossum, að nauðsynlegt sje að halda áfram þessari rannsókn, hvernig sem annars kunni að fara um Sogið, svo að menn gangi ekki gruflandi að neinu. Hv. þm. (Sv. Ó.) játaði það, að þessi rannsókn kæmi til og væri nauðsynleg, þegar fara ætti að virkja fossana. En það eru einmitt bestu rökin fyrir því, að framkvæmd rannsóknarinnar getur aldrei verið óþörf.

Eins og jeg gat um í upphafi, þá hefir mjer ekki gefist tilefni til að vera langorðari en jeg nú hefi verið. Geta því aðrir hv. þm. tekið til máls.