25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Torfason:

Jeg hafði hugsað mjer að beina nokkrum fyrirspurnum til til hæstv. fjármálaráðherra, til leiðbeiningar nefndinni.

Í fyrsta lagi, hvers vegna er í 2. lið gjaldið áfram látið miðast við hundraðstölu, en ekki við þyngd, eins og í hinum 13 liðunum? Og hvort sjerstök ástæða er til þess að halda því ákvæði, þar sem þó ábyggilegt er, að tollur hefir ekki verið innheimtur samkvæmt þessum lið í mörg ár?

Í öðru lagi væri fróðlegt að vita, hver munur er á ,,nýr“ í 2. lið og „ósaltaður og óhertur“ í 15. lið. Mjer skilst í fáfræði minni, að ákvæði 15. liðar sjeu annars eðlis en ákvæði 2. liðar, og er þá spurningin, hvort hin tilfærðu orð í 15. lið sje víðtækari en ,,nýr“ í 2. lið. Í nál. Nd. er ekkert orð, sem gefi bending um það, hvernig þetta ákvæði 15. liðar beri að skilja.

Í þriðja lagi vildi jeg mega spyrjast fyrir um það, hvort það er af ásettu ráði, að gjaldið samkvæmt 5. lið á eigi að greiðast lengur en til 1. janúar 1920. Jeg vek máls á þessu af því, að í öðru frv., sem hjer er á ferðinni um gjald af sömu vöru, er gildistökudagur settur 1. apríl 1920. Er þá meiningin, að þessi vörutegund verði gjaldfrjáls þessa 3 mánuði, eða er hjer um ósjálfrátt niðurfall að ræða ?

Hv. þm. Ak. (M. K.) hefir minst nokkuð á 15. lið og bent á það, hvort ekki væri rjett að afnema hundraðsgjaldið og hafa í þess stað stimpilgjald.

Sami hv. þm. hefir og drepið á það, hvernig skilja megi 15. lið. Ef athugað er upphaf 1. gr. 1. nr. 16, 4. nóv. 1881, þá er það ljóst, að lögin miða fyrst og fremst við, að skipin sjeu afgreidd frá einhverri höfn á Íslandi, eða að minsta kosti aflinn sje tekinn innan landhelgi. En eins og ákvæðið er orðað hjer í 15. lið, virðist ekki útilokað, að lögin eigi að ná til skipa, sem ekki fiska í landhelgi eða leita hafna, sbr. orðin: „sem stunda fiskveiðar hjer við land“. en „fiskveiðar hjer við land“ getur eins átt við fiskveiðar á miðum utan landhelgi. Þetta ákvæði getur gefið tilefni til fleiri spurninga. Jeg skal t. d. nefna það, ef botnvörpungur fyrir sakir vis major leitar hafnar. Ber honum þá að greiða þetta gjald af afla sínum? Jeg býst við því, að ef þessu ákvæði væri fram fylgt eftir orðalaginu, þá yrðu armar rjettvísinnar nokkuð langt teygðir, og eftir þeim byr sem allar tillögur um að styrkja starf hennar hafa fengið hjer í þinginu, þykir mjer ólíklegt, að nægilegt fje fáist til þess að gæta þessa ákvæðis út í ystu æsar.