09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Ak. (M. K.) vjek að því, að þessi síldartollur, sem gert er ráð fyrir í frv., gæti orðið til þess, að að eins auðmenn legðu fje í síldarútgerð, en að fátækir menn hættu við það. Jeg verð nú að játa, að jeg skil ekki þessa röksemdafærslu, að ef það borgi sig fyrir auðmanninn, að það borgi sig ekki eins fyrir þann fátæka. (M. K.: Jeg trúi því vel). Þetta virðist að eins vera sett hjer fram til þess, að svo líti út, eins og hv. þm. (M. K.) sje að berjast fyrir rjetti fátæklinganna, í stað þess, að hann gengur hjer að eins í erindum auðvaldsins. Sama kom ljóst í ljós, þegar verið var að deila um tekjuskattinn fyrir árið 1916, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) barðist fast á móti. (M. T. og M. K.: Þetta er rangt.) Það má fletta upp í þingtíðindunum frá þeim tíma, og mun þá strax sjást að jeg hefi rjett fyrir mjer, enda harla einkennilegt, ef jeg myndi það ekki, þar sem jeg barðist þá við hv. þm.

Hv. þm. Ak. (M. K.) var að reyna að slá því föstu, að síldartunnan kostaði um eða yfir 60 kr., en jeg efa, að þetta sje rjett. Vísa jeg til þess, sem jeg sagði áðan um útreikningana um hvað síldartunnan kostaði. Svona reikning má setja upp á ýmsan hátt, en jeg hygg samt þennan reikning fullháan.

Hv. þm. Ak. (M. K.) fjelst á, að leggja megi 2 kr. skatt á tunnu þetta ár. En þar sem hann hefir gengið inn á þetta, býst jeg við, að röksemdaleiðslan verði honum erfiðari, er hann ætlar að sanna, að ekki nái neinni átt að leggja á líkt gjald fyrir næsta ár. Þegar tunnur, kol og salt er í jafnháu verði sem nú, er það auðsætt, að áhættuminna verður að leggja 3 kr. útflutningsgjald á næsta árs framleiðslu, þegar búast má við að þessar vörur verði mun ódýrari, heldur en 2 kr. á framleiðslu þessa árs.

Hv. þm. Ak. (M. K.) sagði það veðrabreytingu hjá mjer, þar sem jeg vildi nú leggja sama skatt á innlenda sem útlenda menn. Hv. þm. (M. K.) mun reka minni til þess, að þá er stjórnin ræddi við nokkra þingmenn í vetur um tunnutollinn, þá var skjálftinn ekki mestur í fjármálaráðherranum. En jeg álít ekki vert að gera meiri mismun á innlendum og útlendum mönnum í bili. Meðan verið er að gera ýmsa samninga við erlend ríki, fyrir landsins hönd, hygg jeg rjett að fara varlega. Þó að jeg hafi verið á annari skoðun fyrir nokkrum árum, þarf engum að þykja undarlegt, að jeg held nú þessu fram; það eru nýjar kringumstæður fyrir hendi. Enda virðist hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. þm. Ísaf. (M. T.) vera mjer sammála í þessu efni; þeir hafa ekki borið fram neinar brtt. um þetta atriði.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) gat um dagskrána, er síldartollsfrv. var afgreitt með á þingi 1916–1917. Mjer finst það í fullu samræmi við dagskrána, að stjórnin ber þetta frv. fram nú. Jeg sá enga ástæðu til að láta langa greinargerð og útreikninga fylgja frv., en stjórnin hefir fært hinar sjálfsögðu ástæður fyrir rjettmæti þess.

Það er broslegt að heyra því haldið fram, að stjórnin ráðist á þennan atvinnuveg, þó að hún vilji leggja hæfilegan skatt á hann.

Þá vildi hv. þm. ekki telja það sönnun fyrir því, að þessi atvinnuvegur væri arðvænlegur, að menn sækjast svo mjög eftir að stunda hann. Kvað hann útgerðarmenn eiga mikinn tunnuforða, er þeir þyrftu að nota. En Norðmönnum finst það svara kostnaði að flytja nýjar tunnur til landsins og greiða 5 kr. skatt af þeim. Þetta sannar best, að hjer er að ræða um arðsaman atvinnuveg.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að jeg hefði vitnað rangt í nál. hans. Setningin hljóðar svo:

„Að því sleptu, að með örlitlum undirbúningi af hendi stjórnarinnar var í lófa lagið að ná nægilegum tekjuauka í landssjóð, án þess tiltölulega að íþyngja neinum gjaldanda frá því, sem orðið var . . . .“

Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en eftir því, sem orðin hljóða. Hvað á hv. þm. (M. T.) við með „tiltölulega að íþyngja“? Jeg skoða þetta sem gáleysi hjá hv. þm. (M. T.). Það getur komið fyrir alla, sjerstaklega þá, sem eru jafnönnum kafnir og hv. þm. Það var því ekki ætlun mín að gera meiri eld út úr þessu. En mjer er sem áður ekki ljóst, hvar hv. þm. vill fá tekjuauka. Jú, hann sagðist hafa skotið því að mjer í einkaviðtali að hækka vitagjaldið. Mjer hafði komið það til hugar áður. En hve miklu myndi sú hækkun nema? Vitagjaldið er nú 30–40 þúsund kr. árlega, og er auðsjeð að ekki er hægt að ná í stórfje, þó að það væri hækkað. Það myndi og draga landssjóð lítið, þó að erfðafjárskatturinn væri hækkaður; hann er nú um 12000 kr. En ef gera má ráð fyrir 200,000 tn. veiði, næmi síldartollurinn 600,000 kr. árlega. Það er fásinna að benda á annað eins smáræði og vitagjaldið eða erfðafjárskattinn í samanburði við þetta.

Mig furðar stórum á því, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) skuli enn vera í vafa um, að landssjóður hafi brýna þörf á fje, þegar jeg hefi nú skýrt frá hag landsins og bent á hallann á liðnum og komandi árum. Hv. þm. (M. T.) er svo glöggur, að honum hlýtur að vera ljóst, að landssjóður þarf að minsta kosti að fá þessa tekjuauka. Það lítur svo út, að hv. þm. sje að reyna að sannfæra menn um, að landið þurfi enga tekjuauka, til þess að bjarga síldinni.

Hallinn á fjárlagafrv. stjórnarinnar er 400,000 kr. og verður án efa aukinn að mun, sbr. væntanleg launalög. Auk þess má búast við miklum útgjaldaaukum samkvæmt öðrum sjerstökum lögum. Nú hefir t. d. verið borið fram frv. um vega- og brúargerðir, sem mun baka landinu 2 milj. króna útgjöld, ef það verður samþykt, og enn er verið að hugsa um að ráðast í húsabyggingar. Þó að gert sje ráð fyrir, að tekið verði lán til að standast þenna kostnað, þá þarf að greiða vexti og afborganir af þeim lánum, og ef einnig á að taka lán til þess að greiða árlega vexti af lánum o. s. frv., hygg jeg, að fáir muni fást til þess að bera ábyrgð á fjárhag landsins.

Því verður ekki neitað, að síldarútvegur er allra atvinnuvega arðvænlegastur. Útlendingar hafa svo mikla tröllatrú á því, að þeir græði á síldveiðinni, að þeir sækja hingað um langan veg til þess að stunda hana. Jeg skil því ekki, hvernig menn geta haldið áfram að þverskallast við því, að lagt verði á jafnsjálfsagðan gjaldstofn. Jeg hygg, að því muni illa tekið af þjóðinni.

Stjórninni hefir verið borið það á brýn, að hún vilji ráðast á sjávarútveginn. Það er alrangt. Stjórnin vill jafnvægi milli atvinnuvega landsins og hefir sýnt það með því að leggja til, að hækkaðir verði skattar á landbúnaðinum. Í hv. Nd. var borin fram svipuð till. þeirri, sem hv. þm. Ísaf. (M.T.) flytur nú, að leggja útflutningsgjald á nýja stofna, sem eru ýmsar landbúnaðarafurðir. Sú till. var feld í þeirri hv. deild með miklum atkvæðamun. Jeg tók það þá fram, að jeg myndi ekki setja mig á móti þeirri till., þó að jeg væri sannfærður um það, að bændur vildu heldur, að gömlu stofnarnir væru hækkaðir, heldur en lagt væri á nýja. Jeg býst og við því, verði till. hv. þm. Ísaf. (M. T.) samþykt hjer í hv. deild, að hv. Nd. muni fella hana, eftir því sem fram kom, er mál þetta var þar til umræðu. Jeg álít þess vegna til lítils að samþykkja þessa till. og er af þeirri ástæðu í vafa um, hvort jeg muni geta greitt henni atkv.