12.08.1919
Neðri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Frv. þetta er nú loksins komið aftur frá Ed. Því var hraðað gegnum Nd. eins og hægt var, og afgreitt þaðan til Ed. fyrir 21 degi, og vitanlega var lögð áhersla á, að því yrði hraðað gegnum Ed. En Ed. hefir tekið þessar óskir þann veg til greina, að hún hefir haldið frv. hjá sjer í 21 dag og sent það frá sjer með breytingum.

Breytingarnar, sem Ed. hefir gert á frv., eru í fyrsta lagi, að sett er útflutningsgjald á allskonar landbúnaðarafurðir, og í öðru lagi er feldur burtu 15. liður 1. gr. frv., eins og það fór hjeðan.

Fjárhagsnefnd hlýtur að telja báðar breytingar þessar til hins verra En samt hefir nefndin ekki sjeð sjer annað fært en leggja það til, að deildin samþ. frv. með áorðnum breytingum. Svo er sem sje ástatt, að síldarskip búa sig í óða önn til brottferðar um þessar mundir, til þess að losna við útflutningsgjald af síldinni. Hver dagur sem líður kostar landssjóð tugi þúsunda króna. Rjett áðan átti jeg tal við bæjarfógetann á Akureyri. Hann sagði, að eitt síldarskip færi til útlanda í dag og annað á morgun. Nefndin sjer sjer þess vegna ekki fært að leggjast á móti frv., þótt hún sje hins vegar afar óánægð með það.

Það, sem gerir frv. meðal annars óaðgengilegt, er að nú hafa hross verið flutt út sumsstaðar af landinu, en eru óútflutt á öðrum stöðum. Þau eru t. d. útflutt úr Borgarfirði, Árnessýslu og Rangárvalla, en óútflutt á Norðurlandi. Nú vildi jeg skjóta þeirri spurningu til hæstv stjórnar og þess manns úr útflutningsnefnd, sem á sæti í þessari háttv. deild, hvort hún sæi sjer ekki fært að jafna útflutningsgjaldinu niður á öll hrossin, til þess að fyrirgirða misrjetti. Jeg skil ekki annað en að stjórninni sje þetta kleift. Nefndin leggur öll mjög mikla áherslu á þetta sem rjettlætisatriði. Og jeg veit ekki hvernig nefndarmenn snúast við málinu, ef þessu verður ekki vel tekið.

Því var haldið fram í Ed. að ákvæði 15. töluliðs væri óframkvæmanlegt. En þessi skoðun er bygð á bláberum misskilningi. Liðurinn var saminn í samráði við lögreglustjórann hjer í Reykjavík. Hins vegar leggur Ed. það til, að útflutningsgjaldið verði tekið eftir þunga. En ríkið verður að eiga það undir ráðvendni skipstjóra á botnvörpuskipum, hversu þunginn er talinn mikill. Hjer er því breyting til hins verra, því að það er auðsætt, að þetta er miklu verra fyrirkomulag en hjer var gert ráð fyrir í þessari háttv. deild, er gjaldið var miðað við brúttósöluverð erlendis. Og jeg tel líklegast, að breyta verði þessu á næsta þingi.

Að lokum vil jeg árjetta þá yfirlýsingu, að jeg álít það gersamlega óviðunandi af Ed. að draga mál þetta svona á langinn, þar sem nauðsyn bar til, að frv. yrði sem fyrst að lögum. En þessi dráttur ljet þó að líkum, því að sumir háttv. þm Ed. álíta alla tekjuauka vera óþarfa, en reynslan mun áreiðanlega sýna hið gagnstæða.

Að síðustu er þess að geta, að einasta ástæðan til þess, að nefndin sjer eigi fært annað en samþykkja frv., er fyrirsjáanlegt stórtap fyrir ríkissjóðinn í mistum síldartolli, ef því verður eigi leyft að ganga áfram óbreyttu og leitað konungsstaðfestingar á því í dag.