12.08.1919
Neðri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Matthías Ólafsson:

Jeg er ekki ánægður með breytingu þá, sem háttv. Ed. hefir gert á 2. lið 1. gr., að flytja yfir í hann fisk þann, sem fluttur er til útlanda óhertur og ósaltaður, og áður tilfærður í 15. liðnum, og þá gert ráð fyrir, að 1% af söluverði hans yrði greiddur í toll, en nú á að greiða tollinn eftir þyngd hans, en búast má við, að einatt verði allerfitt að fá glögga vitneskju um hana. Reyndar er það bót í máli, að hann mun að jafnaði vera seldur í svo kölluðum „kitts“, og að hvert þeirra hefir hjer um bil ákveðna þyngd. Getur skipstjórinn gefið upp tölu þeirra, og má fara eftir henni við tollheimtuna. Þó mundi sanngjarnara að taka tollinn eftir verði en vigt fisksins.

En það tjáir ekki að einblína um of á galla frv., einkum þar eð vænta má, að lög þessi verði skamma stund óbreytt í gildi. Jeg hefði meðal annars kosið, að þriggja króna tollurinn hefði verið lagður á síldina í ár, en ekki nema tvær krónur eftirleiðis. Nú er það þegar sjeð, að síldarafli muni verða góður í ár, og vonir um sæmilegt verð, en hvorttveggja óvíst næsta ár. Eigi að síður verð jeg að taka undir með hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að nauðsyn beri til að samþ. frv. óbreytt, þrátt fyrir gallana á því.