07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

14. mál, stofnun Landsbanka

Matthías Ólafsson:

Eins og háttv. þm. sjá, hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 268, ásamt tveim öðrum hv. þm. Hún fer í þá átt að hækka laun bankastjóranna þannig, að í stað þeirra 6000 króna og 5% af netto-arði bankans, — alt upp að 300 þús. kr., — komi sama fasta upphæðin og 5% af netto-arði, alt upp að 600 þús. krónum. Eða með öðrum orðum, hún hækkar um helming það hámark ársarðs bankans, sem veita má af hundraðsarð bankastjórunum. Það hafa komið fram till., sem ganga miklu lengra, eins og till. hv. þm. S.-Þ. (P. J.), en jeg verð að halda mjer fast við þessa brtt. okkar þremenninganna.

Háttv. frsm. (M. G.) fann að því, að launin yrðu of há með henni, en hjer er þess að gæta, að við verðum að hafa í bakastjóraembættin vel hæfa menn og menn, sem hafa notið sjermentunar um lengri tíma. Því við erum hjer ekki að setja lög fyrir þá, sem nú eru í þessum embættum, heldur fyrir óborna. Svo eru þetta heldur ekki mikil laun í líkingu við laun samskonar manna erlendis. Það er að vísu satt, að þau geta orðið nokkuð há, með föstum launum og dýrtíðaruppbót, ef arðurinn nær hámarki því, sem veita má af prócentur, en aldrei geta þau farið út í miklar öfgar.

Mjer er ekki kunnugt um, hvort þeir, sem nú eru bankastjórar, eiga að fá laun þessi, sem hjer er verið að ræða um, eða ekki, en vona, að þeir verði að viðurkenna, að þau eru til stórbóta frá því, sem nú er. Og kosturinn á okkar brtt. er sá, að hún bætir fullkomlega þau launakjör, sem eru óviðunandi án þess að fara út í öfgar.