25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

14. mál, stofnun Landsbanka

Magnús Kristjánsson:

Um brtt. þessa er ekki mikið að segja. Jeg sje ekki, að hún sje til bóta og býst því eigi við að geta greitt henni atkv.

Mjer finst frv. vel viðeigandi, eins og það kom frá Nd., og gegnir furðu, að jafneðlilegt fyrirkomulag og það, að Landsbankinn skuli ávaxta sem mest af opinberu fje, skuli ekki hafa verið tekið upp fyrir löngu.

Orðin „öðru jöfnu“ eru þungamiðjan í brtt. Ættu þau að skiljast á þann hátt, að þegar svo stæði á, að á einhverju landshorni væri útibú einungis frá Íslandsbanka, að eðlilegra væri að leggja fje þeirra sjóða, er þar væru, inn í útbúið, en að senda það langar leiðir með pósti, þá þyrfti það nánari skýringar við. En nú stendur í 8. gr. frv. ákvæði, er mjer finst segja nokkurn veginn það sama, sem sje „nema sjerstakar ástæður banni, svo sem staðhættir“. Af þeirri ástæðu tel jeg brtt. óþarfa.

Um geymslufje væri frekar talandi, en engin brtt. liggur fyrir um það efni, svo jeg sje ekkert á móti, að um það sje ákveðið svo sem gert er í frv. Jeg tel það ekki merkilegt atriði og býst við, að Íslandsbanki telji sjer ekki mikinn óhag í því, og ekki mjög eftirsóknarvert að ávaxta það, ef skilningur hv. flm. um það, að þessi innlög sjeu oft bagaleg, er á rökum bygður.

Við skulum segja, að það kæmi fyrir, að ríkissjóður þyrfti að koma til geymslu stórri fjárhæð í nokkra daga, og Íslandsbanki sæi sjer fært að greiða hærri vexti en Landsbankinn. Jeg býst ekki við, að slík samkepni eigi sjer stað, og ekki heldur við því, að Íslandsbanki verði færari um að greiða hærri vexti en Landsbankinn. En kæmi slíkt fyrir, hver væri þá afleiðingin? Ef fjeð væri sett í Íslandsbanka, fengi ríkissjóður nokkrum krónum meira í vexti. Væri það aftur sett í Landsbankann með lægri vöxtum, lenti gróðinn hjá Landsbankanum.

Jeg lít svo á, að ríkissjóður og Landsbankinn sjeu svo nátengdir, að þetta komi í sama stað niður. Það yrði sama sem að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn.

Mjer finst Íslandsbanka enginn ógreiði gerður með þessu, heldur er að eins verið að gera það eðlilega, að styðja að því, að ríkisbankinn hafi sem mest opinbert fje og verði þannig megnugri að hlaupa undir bagga með ríkissjóði, þegar hann þarf á bráðabirgðalánum að halda.

Mjer hefir skilist, að Íslandsbanki telji sjer alla vegi færa, með því að auka hlutafje sitt, og tel jeg það ágætt og eðlilegt, að hlutafjelagsbanki hafi sem mest fje í veltunni — þó útlent sje —, en ríkisbanki innlent opinbert fje.

Jeg vil ekki fara lengra út í mál þetta; geri ráð fyrir, að hv þm. sje orðin ljós afstaða mín til þess. Mjer hefir þótt leitt, að mál þetta hefir orðið deilumál og ýms skrif komið út um það, sem betur væru óskrifuð. Má benda á grein eftir einn af fjármálafræðingum og fyrverandi starfsmönnum landsins, en jeg hygg, að ljóst sje, að ummæli hans eru ekki á rökum bygð, enda væri ilt, ef svo væri ástatt, sem þar er gefið í skyn. Jeg vil helst komast hjá deilum um mál þetta í þessari hv. deild, og tel einfaldast og sjálfsagt að samþ. frv. óbreytt, eins og það kom frá Nd., þar sem jeg tel brtt. ekki til bóta.