18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

18. mál, fasteignamat

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er fullkomlega sammála hv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, að yfirstandandi jarðamat er langt frá því að vera sanngjarn grundvöllur undir skattgjöld. En þegar þess er gætt, að ekki er úr háum söðli að detta, því vitlausara en matið frá 1861 getur þetta mat aldrei orðið, þá er eins og maður verði ánægðari með nýja matið. Það verður altaf sanngjarnari grundvöllur en eldri möt.

Mjer virðist hv. frsm. (S. F.) leggja of mikið upp úr nákvæmri skoðun undirmatsnefndanna. Löggjafarnir, sem lögin settu, virðast ekki hafa talið skoðunina nauðsynlega. Hún er heldur ekkert aðalatriði. Þó ekki hefði verið varið nema einum degi til þess að skoða hverja jörð, þá hefði matið orðið miklu langdrægara og dýrara en ráð var gert fyrir. Mín reynsla er það, að það hafi verið frostavetrinum að þakka, að við í Strandasýslu gátum ferðast sæmilega um sýsluna. Vegna ísa gátum við afkastað meiru á dag en ella á viku. En nákvæma skoðun gátum við þar fyrir ekki framkvæmt. Enda engin nauðsyn. Þegar tveir menn eru valdir sinn af hverju sýsluhorni, og þegar formaður nefndarinnar hefir búið í 4 hreppum sýslunnar, eins og átti sjer stað í minni sýslu, þá er ekki svo mikil ástæða til að hræðast ókunnugleika matsmannanna. Margra ára kunnugleiki hefir meira að segja en ferðalögin. Yfirleitt reyndust okkur skýrslur almennings vel. Þær voru ábyggilegar, þó að vísu þyrfti að færa þær til betra máls. Þessar skýrslur kunnugra manna voru nokkuð notadrýgri en ferðalög. Jafnvel þó maður hefði verið leiddur þangað, sem fólkið var að slá, þá hefði ekki verið hlaupið að því að gefa rjetta lýsingu á slægjum jarðanna stærð þeirra og gæðum. Matsnefndin spurðist alstaðar fyrir, og reyndist það best. Í lögunum var svo fyrirskipað, að halda fund á einum stað í hverjum hreppi. Þessi fundarhöld reyndust að vísu svo, að fáir eða engir komu. En þó varð þetta ákvæði þess valdandi, að nefndirnar ferðuðust og leituðu upplýsinga. Að vísu datt okkur ekki í hug að koma á nokkurn einn einasta bæ, þar sem við hefðum fengist við úttektir eða vorum af öðrum ástæðum nákunnugir jarðkostum. Það kemur ekki fram af skýrslum nefndanna, hvað þær hafa ferðast mikið, heldur sjest það af kostnaðarreikningnum. Árangurinn er ekki hlutfallslegur við kostnaðinn, heldur kunnugleikann. Landsnefndin mun eiga erfitt verk fyrir höndum, og vandasamt verður að komast niður á rjettan mælikvarða. Mjer er næst að halda, að nefndin eigi sem minst að starfa á kontorunum hjer í Reykjavík, heldur eigi hún að ferðast og hafa tal af mörgum undirmatsnefndum úti um landið. Þetta hefði þurft að gera í byrjun matsins, en betra er seint en aldrei.