23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Sveinn Ólafsson:

Ef til vill hafa háttv. þingdm. ekki tekið eftir brtt. frá mjer á þgskj. 134, af því að hún er svo lítil fyrirferðar. Vil jeg því vekja athygli á henni með örfáum orðum. Það sem jeg hefi fyrir augum með henni, er, að jeg tel eigi rjett, að ákvæði 10. gr. taki til viðskifta einstakra manna með kjöt, svo sem sendingar til kunningja eða vina í nágrannalöndunum eða kjötkaupa útlendra — t. d. færeyskra — fiskimanna, er veiðar stunda hjer við land. En eins og greinin er, eru gerðar allar sömu kröfur til þess kjöts sem hins, er flutt er út til sölu erlendis. Mjer fanst því að ósekju mega bæta þessari stuttu setningu inn: „til sölu á útlendum markaði“. Er með þessari breytingu undanskilið fullkomnu mati það kjöt, sem selt er einstökum mönnum eftir beiðni þeirra eða útlendum fiskiskipum, en ekki er flutt á heimsmarkaðinn. Jeg fæ ekki sjeð, að slíkt kjöt þurfi að fullnægja öllum þeim ströngu reglum um mat á kjöti, sem hjer eru settar. Vona jeg því, að háttv. landbúnaðarnefnd geti felt sig við þetta.