15.08.1919
Efri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Guðmundur Ólafsson:

Það eru að eins örfá atriði, sem jeg ætla að minnast dálítið á. Háttv. frsm. (E. P.) mælti mjög með símalínu frá Kiðjabergi að Borg í Grímsnesi; kvað hann línu þessa afarnauðsynlega, og má vel vera að svo sje. En mjer þykir undarlegt að einmitt þessi lína skuli vera tekin, því jeg veit ekki betur en að fyrir hv. Nd. liggi þingsál.till. um að veita fje til rannsóknar á þessari línu. Finst mjer rjettara, að rannsóknin fari fram áður en fje er veitt til að leggja línuna. Vona jeg, að háttv. frsm. (E. P.) gefi betri upplýsingar um þetta atriði; ella mun jeg að minsta kosti ekki geta greitt atkv. með því.

Aftur á móti skil jeg vel að símaspottinn til Vestmannaeyja muni vera nauðsynlegur. Sömuleiðis skil jeg, að bæta þurfi kaup vitavarða, ef þeir ætla að segja af sjer, en á hinn bóginn býst jeg varla við, að þar fylgi mikil alvara máli.

Þá er styrkveitingin til Trausta Ólafssonar. Mjer er sagt, að það sje ágætismaður og er gott, ef þar er rjett frá skýrt: jeg veit, að þörf er á efnafræðingi, en jeg vildi gjarnan fá upplýsingar um hvort ekki eru fleiri menn hjerlendir við efnafræðisnám nú. Mig minnir, að jeg hafi eitthvað heyrt um það.