28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sigurður Stefánsson:

Jeg get tekið undir orð háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), að umr. um þetta mál sjeu ekki þýðingarmiklar, en það er af því, að það stendur sjerstaklega á fyrir mjer, að jeg verð að gera grein fyrir atkv. mínu.

Jeg hefi jafnan verið því mjög fylgjandi, að Reykjavík fengi fleiri þm., sem hún náttúrlega fær á endanum, eftir langar deilur og samanburð við önnur kjördæmi, en það veit jeg fyrir víst, að ef líkt stæði á fyrir nokkru öðru kjördæmi á landinu og fyrir Reykjavík, þá mundu það verða allháværar ræður, sem fengju að heyrast úr þeirri áttinni; það getur víst hver og einn stungið hendinni í sinn eigin barm til að finna það.

Jeg tel, að það sje skylda hverrar þjóðar að hlynna sem best að höfuðstað sínum. Hann leggur mest af mörkum til landssjóðs, og þar að auki öðrum landshlutum fremri, að hann hefir löngum færari mönnum á að skipa. En jeg myndi samt sem áður vera mjög á móti þessari þingmannafjölgun Reykjavíkur, ef jeg hefði einhvern tíma vitað til þess, að þm. þess bæjar hefðu einhvern tíma viljað vinna á móti rjetti hinna annara kjördæma, en það hefir aldrei borið á því, að þeir hafi beitt sjer fyrir því, að rjettur annara kjördæma væri fyrir borð borinn, og sje af þeirri ástæða um nokkurn ímugust að ræða gegn þessari þingmannafjölgun, þá verð jeg að lýsa hann algerlega ástæðulausan.

Jeg var sjálfur í nefndinni og fjelst á, að fjölgun um 2 væri bót, eða að minsta kosti betra en ekki; en hins vegar taldi jeg ekki fært eða sigurvænlegt að ganga lengra, þó að sanngirni hefði mælt með. Og þess vegna greiddi jeg atkvæði með því hjer í deildinni, að þingmönnum bæjarins væri fjölgað upp í fjóra.

Nú þegar háttv. Ed. hefir haft málið til meðferðar og komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að fjölga þm. Reykjavíkur um 3, þá get jeg ekki varið það fyrir mjer, að háttv. Nd. beiti sjer á móti fjölguninni og taki ekkert tillit til hv. Ed.

Jeg álít, að ekki eigi að deila um það frekar, þó að málið sje nú komið í það horf, að Reykjavík fær einum þingmanni fleira en hjer var samþykt, sjerstaklega þegar því má bæta við, að með þessu er engu öðru kjördæmi neinn órjettur ger, og í annan stað þessi krafa Reykvíkinga í alla staði sanngjörn.

Það hefir verið talað um, að þm. Reykjavíkur mundi ekki verða fjölgað meira í bráðina. En haldi Reykjavík áfram að vaxa eins ört eins og átt hefir sjer stað síðustu árin, þá má vel svo fara, að hún geti átt heimtingu á fleirum en 5.

Jeg skal að vísu játa það, að æskilegt hefði verið að geta endurskoðað öll kosningalögin og kjördæmaskipun landsins. En sanngirniskröfu tel jeg það eigi að síður að verða við kröfunni, þó að þetta kjördæmi sje tekið út úr kerfinu.

Jeg verð að segja fyrir mig, að mjer finst það ekki eiga við að gera ráð fyrir því, að þm. Reykvíkinga hafi áhrif á alt þingið. Mjer finst þar óneitanlega nær höggið sjálfstæði og sannfæringu þm., enda þm. Reykvíkinga gert þar nokkuð hátt undir höfði, með því að setja þá þannig fyrir ofan aðra þingmenn. Það væri eðlilegra að segja, að við hefðum áhrif á þá, þar sem við erum fleiri.

Það, sem fyrir mjer vakir, er það, að jeg vil sýna fulla sanngirni. Og þegar litið er til fólksfjöldans, þá verður varla annað sagt en hjer sje um eðlilega og sjálfsagða sanngirniskröfu að ræða.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, enda álít jeg, að umr. um þetta sjeu þýðingarlitlar. Jeg hefði ekki staðið upp. hefði ekki svo staðið á, að hjer þurfti að mæta háttv. Ed. á miðri leið.

Þegar hjer var komið umræðum. var forseta afhent skrifleg beiðni frá 9 þm. (E. E., B. H., S. St., H. K., J. S., St. St., Þorl. J., Sv. Ó. og Þorl. G.) um, að umr. skyldi hætt þá er þeir þingmenn hefðu lokið máli sínu, er þegar hefðu kvatt sjer hljóðs.

Leitaði forseti atkvæða deildarinnar, og var till. um þetta efni samþ. með 15 shlj. atkv.