19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

9. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Sveinn Björnsson):

Jeg gat þess í gær í framsöguræðu minni í stjórnarskrármálinu, að nefndin hefði talið sjer skylt að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið fyrst. Það má segja, að þetta frv. sje einskonar viðauki við stjórnarskrárfrumvarpið. Lá því næst fyrir nefndina að afgreiða það á eftir stjórnarskrárfrumvarpinu. Þetta frv. er stutt, og er það eingöngu komið fram til að samræma kosningalögin við stjórnarskrána. Nefndinni fanst það til hlýða að gera nokkrar breytingartillögur við þetta frv. eins og það kom frá hendi stjórnarinnar.

Brtt. eru þessar:

1. Við 2. gr. vill nefndin leggja til, að á eftir orðunum „hver ríkisborgari“ komi: karl og kona.

2. Að á eftir 2. gr. komi ný grein, sem verði 3. grein:

Fyrri málsgrein 79. gr. orðist þannig: Almennar hlutbundnar og óhlutbundnar kosningar til Alþingis fara venjulega fram 4. hvert ár.

Nefndin vildi gera þessa brtt. til samræmis, sökum þess að stjórnarskráin gerir alment ráð fyrir, að kosið sje 4. hvert ár. en ekki 6. hvert ár.

3. Á eftir þeirri grein komi ný grein, sem verði 4. gr., svo hljóðandi:

Í stað fyrri málsgreinar ákvæða um stundarsakir komi: Kosningarrjetti og kjörgengi við alþingiskosningar halda, að öðru jöfnu, þeir menn, er þann rjett hafa fengið áður en stjórnarskrá þessi öðlast gildi, þótt þeir sjeu ekki íslenskir ríkisborgarar, eða hafi sömu rjettindi samkvæmt 75. gr.

Umboð þeirra landskjörinna þingmanna, sem ekki eiga að fara frá árið 1922 eftir hlutkesti, falla niður árið 1926.

Almennar reglulegar alþingiskosningar í sjerstökum kjördæmum skulu fara fram árið 1923. Ekki mega þær þó fara fram fyr en að loknu Alþingi það ár.

Nefndinni þykir ekki ástæða til að láta ákvæðin um stundarsakir standa óbreytt í kosningalögunum frá 1915. Voru þau aðallega sett með tilliti til kosninganna sem fram fóru 1916.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að hentugast væri að bæta þarna við þeim ákvæðum, sem hefðu orðið aftan við stjórnarskrána, en snerta það efni, sem kosningalögin eru um, og sýndist nefndinni þurfa að breyta ákvæðunum um stundarsakir, samræmisins vegna.

4. Upphaf frumvarpsins orðist svo: Í stað 1. og 6. greinar, fyrri málsgr. 79. gr. og fyrri málsgr. ákvæða um stundarsakir í lögum 3. nóv. 1915, um kosningu til Alþingis, koma eftirfarandi greinar.

Nefndin álítur heppilegast, að breytingar slíks lögformlegs efnis komi frá sjálfri landsstjórninni. Þannig að fullu samræmi yrði náð, en í þessu falli hefir hæstv. stjórn láðst að gera þetta. Eigi vill nefndin þó ávíta hæstv. stjórn fyrir þetta, en vildi að eins benda á hvað heppilegast væri. Að lokum leyfi jeg mjer að æskja þess fyrir hönd nefndarinnar, að þetta mál fái sem greiðastan framgang í hv. deild.