21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

13. mál, eftirlit með útlendingum

Frsm. (Björn Hallson):

Jeg skal fyrst leyfa mjer að geta þess, að það hefir slæðst inn lítils háttar prentvilla í frv., í 2. málsgrein; þar stendur „umbóta“, en á að vera umbrota. Þetta skiftir að vísu ekki miklu máli, en jeg vil þó benda á, að þannig á það að vera, og verður líka leiðrjett. Nefndin hafði þetta mál ekki lengi til meðferðar, taldi ekki rjett að tefja framgang þess, en vildi, að það næði fram að ganga þegar á þessu þingi.

Nefndinni fanst málið í þeim búningi, að við það mætti að mestu una. Við höfum ekki rekið augun í fleira en nál. tilgreinir.

Þetta, sem frv. fer fram á, er alveg nýtt; það eru ekki til nein sjerstök lög um eftirlit með útlendingum hjer á landi, það er að segja, samstæð lög eru engin til, heldur að eins einstakar lagagreinar, t. d. 17. gr. hegningarlaganna frá 1869. 32. og 43. gr. fátækralaganna frá 1905, og svo í sambandslögunum frá 1918, sem gera ráð fyrir jafnrjetti Dana og Íslendinga samkv. 6. gr.

Á þessum tímum, sem nú eru, er full þörf á, að samin sjeu sjerstök lög um þetta efni, og má í því sambandi minna á, að aðrar þjóðir hafa strangt eftirlit með því, hverjir flytjast inn í lönd þeirra, og er því ekki nema sjálfsagt, að eins sje gert hjer. Síðasta þing leit líka svo á, sbr. þingsályktun þess, og stjórnin hefir orðið við vilja þess með því að leggja þetta frv. fyrir þingið nú. Það má enn fremur benda á það, að víða ber mikið á gerbyltingamönnum, eða bolshevikka-hreyfingunni rússnesku, svo að full ástæða getur verið til að hafa eftirlit með því, hverjir setjast hjer að, meðal annars af þeirri ástæðu.

Nefndin hefir ekki lagt til, að stjórnarfrv. verði breytt að nokkrum mun; það eru að eins tvær breytingar, önnur við 7. gr., á þingskjali 38. Hún gengur út á eftirlit með gistihúsum, eða þeim húsum, sem opinberlega selja næturgreiða, hvort sem þau eru í sveit eða kaupstað. Hins vegar telur nefndin ekki nauðsynlegt, að haft sje eftirlit eða gestabækur á bæjum með fram þjóðvegum, sem selja ferðamönnum greiða nótt og nótt. Eftirlit með þeim virðist ástæðulaust, og yrði ekki nema á pappírnum, þótt sett yrði.

Nefndin fellst því á skoðun stjórnarinnar, að þessi lög eigi að eins að snerta regluleg, opinber gistihús, hvort sem er i sveitum eða kaupstöðum. Brtt. þessi er því til þess að skýra 7. gr. stjórnarfrv., þar sem nefndinni virðist ekki koma skýrt fram í greininni, hvernig eigi að haga þessu eftirliti með þeim, sem selja greiða. Jeg hygg líka, að það hafi komið fyrir áður, að skýrslna frá slíkum húsum hafi verið krafist, en ekki fengist, með því að sú krafa hafði ekki við nein lög að styðjast, svo að nú er ekki hægt að hafa fullkomið eftirlit með slíkum húsum, nema að hafa við einhver lög, svipuð þessum, að styðjast.

Hin breytingin er við 12. gr., þar sem nefndin leggur til, að þessi lög gangi strax í gildi.

Jeg man svo ekki til, að það sje fleira, sem jeg þurfi að taka fram fyrir nefndarinnar hönd að svo stöddu.