25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Frv. þetta er fram komið frá sjávarútvegsnefndum beggja deilda. Ástæðurnar fyrir því er að finna í greinargerðinni, en þó vil jeg bæta við hana nokkrum athugasemdum frá sjálfum mjer.

Það er oss öllum ljóst, að á komandi tímum verður mjög mikil eftirsókn eftir fiskimiðum hjer við land. Svo var það orðið fyrir ófriðinn, og má þó gera ráð fyrir, að aðsóknin verði framvegis miklu meiri en hún var þá, þegar þjóðirnar fara að sinna atvinnuvegum sínum aftur fyrir alvöru.

Nú er hins vegar svo ástatt, að vjer eigum dálitla sjereign umhverfis landið, sem oss ríður mikið á að vernda fyrir ágangi erlendra sjómanna. Þetta hefir síðasta Alþingi sjeð, er það heimilaði stjórninni að kaupa, láta smíða eða leigja eitt eða fleiri skip til strandgæslu. En málinu er samt enn þá ekki lengra komið en svo, að ákveðið er, að eitt eða tvö skip frá Dönum annist strandgæsluna. Breytingin, sem á hefir orðið, er þá sú ein, að skipin verði 2, í staðinn fyrir eitt. Þetta verður fyrirsjáanlega ónóg strandgæsla. En eins og stendur höfum vjer ekki önnur betri ráð til að bæta úr þessu en þau, að herða á sektarákvæðunum fyrir landhelgisbrot, og vjer ættum ekki að telja eftir oss að gera það, sem í voru valdi stendur.

Um þetta eru til lög frá 1898, 1902 og 1909, sem þó eru ekki alveg sjálfum sjer samkvæm.

Jeg skal geta þess, að í samvinnunefndinni var dálítill ágreiningur um sektaraukann. Sumum þótti 10 þús. kr. sekt of há. En jeg er þeirrar skoðunar, að það sje ekki. Þúsund króna lágmarkið er alt of lágt og úrelt, með tilliti til peningaverðfallsins. Fyrrum seldu botnvörpungar afla sinn fyrir 8000 kr., en nú er hann seldur fyrir jafnmörg sterlingspund. Þessar 10 þús. kr. eru því að eins sorglega lítill inngangseyrir inn í landhelgina. Sektarákvæðin ættu sannarlega að vera hærri. Og þegar þess er gætt, að lagðar hafa verið 100 þús. til 500 þús. kr. sektir t. d. við broti á sölubanni á vissum vörutegundum, þá er þessi sekt síst of há í samanburði við það. Jeg hefði verið ánægðastur með 100 þús. kr., svo að þeir gerðu sjer það ekki að leik að brjóta lögin.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem nefndirnar hafa gert á lögunum. Aðrar breytingar skifta lítt máli. Þess skal þó getið, að feldar hafa verið burtu undanþágurnar í 3. gr. laga frá 1902, en þær hafa verið notaðar til þess að komast undan sektum.

Með því að hv. deild eru þessi atriði eins ljós og mjer, þá finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar, en vona, að deildin leyfi því fram að ganga með afbrigðum til 2. umr. á næsta fundi hjer frá, er væntanlega verður skotið á að þessum fundi loknum, og til 3. umr. á næsta fundi þar á eftir.