26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg get vel leitt hjá mjer að blanda mjer inn í þessa gömlu deilu um sendiherrann. En jeg get þó ekki stilt mig um að segja, að mig furðar á hinum gullna ljóma, sem sendiherrann stendur í fyrir sumum hv. þm. Jeg hefi mi, satt að segja, aldrei haft eins háar hugmyndir um hann og hv. þm. Borgf. (P. O.). Mig furðar á því að heyra gamla sjálfstæðismenn vilja draga úr þeim sjálfsögðu og skýrustu sönnunum um fullveldi vort, sem sendiherra í Kaupmannahöfn er, enda þótt máske við það spöruðust nokkrar krónur að hafa hann ekki. Er hugsunarhátturinn nú orðinn sá, að fullveldi sje að vísu gott, en það megi bara ekki kosta of margar krónur.

Þá vildi jeg snúa mjer að hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) og svara spurningu hans. Hjer er að eins um eins árs fjárveitingu að ræða, sem sje fyrir árið 1920. Einnig vildi jeg skýra frá, að þessi 20 þúsund til ræðismannsins í Miðjarðarhafslöndum eru, eins og gefur að skilja, miðuð við árslaun.

Viðvíkjandi þeirri spurningu, hvort það hafi verið meiningin að hafa 2 menn í Miðjarðarhafslöndunum, með því að Fiskifjelagið muni hafa ráðunaut sinn þar, er því að svara, að starfi ráðunauts Fiskifjelagsins mun vera þannig vaxinn, að hann er nokkuð á ferð og flugi og á sjer hvergi fastan samastað, þó nú hittist svo á, að hann sje á þessum stöðvum. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir borið málið undir þá menn, utan þings og innan, sem mest skyn bera á þessa hluti, og hafa þeir allir talið hina brýnustu þörf á ræðismanni þarna, hvar svo sem ráðunautur Fiskifjelagsins hjeldi sig.

Um það, hvort fjárveitinganefnd hafi nokkuð á móti því, að Búnaðarfjelagið skifti sjálft niður þessari dýrtíðaruppbót, vil jeg svara því, að nefndin sjer ekkert því til fyrirstöðu, að Búnaðarfjelagið skifti styrknum sjálft, en það má sjálfu sjer um kenna, ef það skiftir styrknum ekki rjettlátlega niður og eins og nefndin segir fyrir, því engrar frekari fjárveitingar er þá að vænta.

Jeg beindi ræðu minni aðallega til stjórnarinnar, fyrir því að ekki vanst tími til að skrifa nefndarálit, en stjórninni er fremur skyldara að fara eftir ræðu framsögumanns nefndarinnar en öðrum úti í frá.

Hv. þm. Ak. (M. K.) kvað fjárveitinganefnd hafa sett deildina í vanda. En jeg get snúið þessu við með rjettu og sagt, að deildin eða þingið hafi sett nefndina í vanda með því að gefa henni ekki meiri tíma til starfsins. Jeg get ekki samsint það, að svipaðar kröfur, um dýrtíðaruppbót, þeim, er nefndin vill að orðið sje við, hafi legið fyrir nefndinni. En hitt skal jeg viðurkenna, að ýmsar kröfur um launabætur lágu fyrir nefndinni. Jeg get skýrt hv. þm. Ak. (M. K.) frá því, með því líka að hann er nú orðinn meðlimur fjárveitinganefndar, að það getur komið til mála, að nefndin afgreiði eitthvað í viðbót, en það getur að eins orðið afgreitt á þann hátt að vísa til stjórnarinnar og mæla með við hana, að hún taki einhverjar upphæðir upp í væntanleg fjáraukalög. En síðan ræður stjórnin því, hvort hún vill taka á sig ábyrgðina, þótt hún viti ekki um ákveðinn stuðning frá neinum nema fjárveitinganefnd.

En annars frekara getur með engu móti unnist tími til.

Jeg álít, að ekki sje rjett að láta þetta bíða til morguns eða laugardags. Ef málið verður látið bíða til laugardags, þýðir ekki að láta það koma fram aftur; það er þá sjálfdautt.

Fjárveitinganefnd Ed. óskaði þess, að þetta mál gæti komist þangað í dag, og því ástæða til að hraða málinu. Jeg hafði ekki ætlað mjer að lenda í neinu þvargi út af þessu, og vil því láta hjer staðar numið að sinni.