28.02.1920
Sameinað þing: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

59. mál, aukning á starfsfé Landsbankans

Flm. (Jakob Möller):

Jeg skal ekki vera langorður. Till. þessi er fram komin út af því, sem gerst hefir, eða rjettara sagt ekki hefir gerst, í bankamálunum á þessu þingi, í sambandi við fyrirætlanir um stofnun nýs banka hjer í Reykjavík. Þetta mál var ekki útrætt hjer í þinginu, en þess varð þó vart, að mótspyrnan var allmikil gegn stofnun nýs banka. Undirrótin var ef til vill aðallega fólgin í því, að menn sáu, að hinn nýi banki myndi verða hættulegur keppinautur Landsbankans, og á hinn bóginn að Landsbankinn er svo veikur, að hann er alls ekki samkepnisfær sökum skorts á starfsfje. Háttv. þm. Dala. (B. J.) upplýsti það, að innlánsvextir bankanna hefðu ekki verið hækkaðir, þrátt fyrir hækkun útlánsvaxta, aðallega sökum þess, að Landsbankinn sæi sjer ekki fært að hækka innlánsvextina, vegna þess að hann hefði því nær eingöngu lánsfje „milli handa“. Vanmáttur Landsbankans er þannig að verða Þrándur í Götu í bankamálum landsins, og má svo búið ekki standa. En þá liggur næst að hugsa fyrir því, hvernig fara eigi að því að gera Landsbankann samkepnisfæran og efla hann svo, að hann verði ekki lengur Þrándur í Götu, heldur lyftistöng vor í þessum málum, eins og honum var í upphafi ætlað. Nú hafa ýmsir peningamenn landsins hug á því að leggja fje í nýjan banka, og liggur þá nærri að taka það til yfirvegunar, hvort ekki væri ráðlegt að grípa tækifærið til að gera Landsbankann að hlutabanka, eins og á sjer stað með ríkisbanka í öðrum löndum. Ef það yrði gert, yrði ekki síður fýsilegt að leggja fje í Landsbankann en nýjan prívatbanka. Hann yrði þá bráðlega aðalpeningastofnun landsins og myndi innan skamms taka að sjer seðlaútgáfuna. Jeg tel því æskilegt, að stjórninni verði nú þegar falið að fara að undirbúa þetta mál og leita fyrir sjer um undirtektir peningamanna landsins, í því skyni, að hægt verði að leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga um breytingar á fyrirkomulagi bankans. En það liggur í augum uppi, að ef bankinn yrði gerður að hlutabanka, þyrfti að gera gagngerðar breytingar á fyrirkomulagi hans og stjórn, sem vitanlega yrði að gera í samráði við væntanlega hluthafa. Og skal jeg sjerstaklega taka það fram, að jeg tel það eigi líklegt, að einstakir menn vilji gerast hluthafar í bankanum, ef þeir fá enga hlutdeild í stjórn hans. — Að svo mæltu vænti jeg þess, að hv. þm. geti greitt till. atkvæði án langra umræðna og ágreiningslítið.