18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (872)

15. mál, biskupskosning

Gunnar Sigurðsson:

Það er kominn fram almennur vilji að flýta þessu þingi sem mest.

Jeg álít, að það sje ekkert tjón, þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga þegar á þessu þingi, og jeg vil skjóta því til sessunautar míns, hv. flm. (S. St), að hann ekki virði það á verri veg, þó að frv. nái ekki að verða að lögum á þessu þingi. Jeg skal ekkert fara inn á efni frv., en hvað formið snertir, þá finst mjer í ýmsu ábótavant. Það stendur t. d. ekkert um það í frv., hverjir skuli hafa kjörgengi til biskupsvígslu; væntanlega hefir það verið meining hv. flm. (S. St.), að kjörgengi hefðu að eins prestvígðir menn, en eftir frv. getur hver sem er verið kjörgengur. Jeg vil því leyfa mjer að leggja hjer fram rökstudda dagskrá, sem jeg skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

Með því að það er almennur vilji þingmanna að flýta aukaþinginu sem mest, og hins vegar ekkert tjón að því, þótt frv. til laga um biskupskosningu bíði næsta reglulegs Alþingis, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.