30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

41. mál, fjárlög 1922

Gunnar Sigurðsson:

Ekki mun jeg lengja umræðurnar mikið. Jeg stend aðallega upp í tilefni af ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Jeg er honum sammála um að útgjöld ríkissjóðs eru nú orðin of mikil, samanborið við tekjurnar. Jeg hefi bent á það áður, og undirstrika það nú, að undirbyggingin er ótrygg. Ef öll framleiðsla er rekin með tapi, eins og því miður mun nú eiga sjer stað, þá er ekki von að yfirbyggingin geti staðist, þá er ekki von að ríkisssjóður geti borgað það, sem hann þarf að borga. Hversu undirbyggingin er orðin ótrygg, er alls ekki þessu þingi að kenna, heldur ýmsum ráðstöfunum margra undanfarandi þinga, og má þá í fyrsta flokki telja launahækkunarlöggjöfina nýju. Menn tala nú mikið um, að nauðsynlegt sje að spara. Þetta er satt. En samt er það nú ekki aðalatriðið. Það hjálpar lítið, þótt menn skeri smáupphæðir utan af ýmsum styrkveitingum. Nei, negatíva hliðin — að spara — er ekki aðalatriðið. aðlalatriðið er positiva hliðin, að reyna að tryggja sem best framleiðsluna og reyna af öllum mætti að finna nýjan markað fyrir hana. Jeg skal t. d. benda á kjötið. Eins og sakir standa er það ljeleg fæða fyrir sjómenn í Noregi. Meðan svo er, getur aldrei orðið öruggur og góður markaður fyrir það. Miklu öruggari leið er að senda fjeð lifandi eða kælt, og sjálfsagt að vinna að því. Jeg bendi á þetta aðeins sem dæmi. Það eru „positivar“ framkvæmdir í þessa átt, sem geta bjargað og eiga að bjarga landinu út úr öngþveiti því, sem það nú er komið í, en ekki sparsemin ein.

Þá skal jeg snúa mjer að till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Jeg vil leyfa mjer að segja, að ekki getur komið til mála að samþykkja hana. Engin lög eru eins vel vernduð eins og fjárlögin. Í 37. gr. stjórnarskrárinnar stendur: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sje til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Og í 2. gr. stendur: „Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi“. Tel jeg heimilt að álykta út frá þessu ákvæði, að ekki sje heimilt að leggja þetta vald í hendur eins manns; að minsta kosti er það svo „reelt“. Annars virðist þm. ekki vera ljóst, hvað hjer er um að ræða. Alþ. er að afsala sjer fjárveitingavaldinu og fá það í hendur einum manni, fjármálaráðherra. Og það er með þessu að leysa fjármálaráðherra undan allri ábyrgð; hann ber samkvæmt till. enga ábyrgð á því, þótt hann felli niður liði í fjárlögunum, eftir því sem honum sýnist. Ef taka á þessa till. alvarlega, þá er það sýnilegt, hvílíkt gerræði slíkt er, að fela fjárveitingavaldið einum manni.

Ef tillaga háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) verður samþykt, getur fjrh. t. d. látið hætta að starfrækja Vífilsstaðahælið og sent sjúklingana heim, ef honum svo sýndist. Engri ábyrgð væri hægt að koma á hendur honum fyrir slíkt; hann hefir fullkominn rjett til þess samkvæmt heimildinni.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir brugðið mjer um, að jeg væri ekki þinglegur. Hann gerði það í kurteisum tón, og mun jeg svara á sama hátt. Það var aðeins formið á minni tillögu, sem hann taldi óþinglegt, en þessi tillaga er sú óþinglegasta, hvað efni snertir, sem nokkurn tíma hefir verið fram borin á Alþingi. (J. P.: Gott, að það er þessi þm., sem álítur það). Það er ekki jeg einn, sem álít það. Jeg vona, að háttv. þm. (J. Þ.) geri sjer og þinginu þann sóma að falla frá þessari tillögu. En ef hann ekki gerir það, þá heimta jeg nú þegar nafnakall um hana, því að jeg vil sjá, hverjir það eru, sem vilja taka fjárveitingarvaldið frá þinginu og fá það í hendur einum manni, fjármálaráðherra.