30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg held jeg verði að byrja á þeim seinasta og hans brtt., þeirri skriflegu. Ef sá siður á að fara að takast hjer upp, að mönnum leyfist að moka inn skriflegum breytingartillögum, óundirbúnum, á síðustu stundu, þá mótmæli jeg honum fyrst og fremst, eins og jeg hefi áður gert. En verði öðrum leyft slíkt, mun jeg einnig bera fram hjer í dag tíu eða tuttugu skriflegar breytingartillögur. (J. A. J.: Mín hefir verið leyfð). Jeg er ekki að tala við þennan forseta, heldur hinn.

Skal jeg svo snúa mjer að málinu sjálfu, en þó auðsýna þessum háttv. þm. (J. A. J.) og háttv. deild í heild sinni þá miskunnsemi að fara ekki frekar út í hans ræðu. Vil jeg þá víkja lítillega að ummælum þeim, sem hrotið hafa í sambandi við orð mín um 17. lið, um bókina um viðurnefni. Hjer er um að ræða verk, sem Íslendingar sjálfir hefðu átt að vinna fyrir löngu, og er sjálfsagt, að þeir taki einhvern þátt í útgáfunni, þegar útlendur maður ræðst loks í verkið. Má annars um málið vísa til brjefsins frá Bókmentafjelaginu.

Svo kem jeg að styrknum til Þórs. Þess hefir verið getið, að það mundi þykja þungur skattur á fiskveiðum, að leggja svo hátt tillag til þessa skips, og ekki verða vinsæll. En jeg held nú, að það þyki, eða ætti að vera, óvinsælla að vilja færa niður þessa litlu upphæð, enda vilja þeir sannarlega ekki vel íslenskum sjávarútvegi. Þetta er heldur ekki nema tæpur þriðjungur af því, sem þyrfti að veita. Slíkar og því líkar fjárveitingar ættu að verða sjálfsagður liður í fjárlögunum, ekki einungis styrkur til þessa eftirlits við Vestmannaeyjar, heldur yfirleitt þar, sem þess er þörf, til að verja og vernda íslenskan útveg og íslenska sjómenn, eigur þeirra og starf. Slíkt er sparnaður, en ekki eyðsla.

Þá er styrkurinn til Páls Erlingssonar. Um hann hjelt jeg reyndar, að jeg þyrfti ekki að fjölyrða, og jeg trúi því heldur ekki fyr en jeg rek mig á það, að háttv. deild geri sjálfri sjer þá vansœmd að fella þann lið. Það er ekki svo oft, sem þinginu hlotnast tækifæri til þess að geta viðurkent sanna atorku og samviskusama alúð í alþjóðar þarfir, eins og hjer er um að ræða, að það megi, sóma síns vegna, drepa hendi við slíku.

Um lánsheimildina til Dalasýslu get jeg verið fáorður. Það er sanngirnismál, sem varla getur orðið deiluefni, allra síst þar sem í rauninni er aðeins um vonina eina að ræða, aðeins farið fram á það að eiga vonina í þetta, ef tilsett skilyrði eru fyrir hendi. Það ætti því ekki að vera torsótt.

Um aðra lánsheimild, til Álafossverksmiðjunnar, skal jeg, út af ummælum hæstv. fjrh. (M. G.) aðallega, taka það fram, að það er auðvitað samningamál milli ríkisstjórnarinnar og verksmiðjueigendanna, hve hátt lán verður ábyrgst. Í till. stendur aðeins „alt að 500 þús.“ Sama er um tryggingarnar. Það er ómögulegt að ákveða nánar um það í till. sjálfri, en stjórninni verður að vera til þess trúandi að ganga þar tryggilega frá öllu.

Svo kem jeg loks að þessari makalausu till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Eftir því hvernig hæstv. fjrh. (M. G.) fórust orð um hana, virtist hann helst langa til þess að gerast hjer einhverskonar alræðismaður. Því að það, sem hjer er um að ræða, er í rauninni hvorki meira nje minna en það, að gefa fjármálaráðherranum leyfi til þess að semja ný fjárlög, — en fótumtroða þau, sem þingið hefir samþykt, svona alveg eins og honum sjálfum þóknast. Það er verið að fara fram á það að gera Alþingi aftur að ráðgjafarþingi. Jeg geri fastlega ráð fyrir því, að þessi óheilla- og afskræmistillaga sje sjálffallin, og háttv. deild sýni með því, að hún vilji ekki óátalið láta ganga á helsta og sjálfsagðasta rjett hverrar löggjafarsamkomu í þingfrjálsu þingræðislandi, þann rjett að ráða fjármálum þjóðarinnar, óskorað af öllum. Atkvæðagreiðslan um þessa till. er einnig atkvæðagreiðsla um rjett Alþingis, og jeg skil ekki, að nokkur alþingismaður þori að vera á móti þeim rjetti. — — — —

Þessar till. eru því fluttar hjer í mínu eigin nafni, og er það því þm. Dalamanna, sem mælir fyrir þeim, en ekki frsm. síðari hl. fjárlaganna.

Jeg hefi ekki orðið var neinna mótmæla gegn þessum tveim till. mínum, og kann jeg háttv. þdm. þökk fyrir það. Geta og hv. þdm. með því að samþykkja þessar till. mínar unnið sjer til frægðar og glatt þjóð sína, og er það ólíku nær heldur en að leggjast á móti því, að menn þeir, sem fá eiga styrk þennan, geti fylgt köllun sinni.

Jeg mun nú láta staðar numið og ljúka hjer með ræðu minni, og býst jeg við, að fyrir þann skamma tíma, sem jeg hefi notað, muni menn sýna í atkvgr. sinni, að þeir sjeu samþ. brtt. þeim, er jeg hefi mælt fyrir.