28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jón Þorláksson:

Af því að jeg er mótfallinn þessu frv., þykir mjer rjett að gera örstutta grein fyrir atkvæði mínu. Jeg er þó ekki mótfallinn þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í málinu, úr því þingið hefir einu sinni búið svona í hendur stjórninni, og stjórnin því í rauninni ekki gert annað en að framkvæma ákvæði Alþingis, og framkvæma það vel, að því er valið á manninum snertir. En það er augljóst, að starf eins og þetta er fyrst og fremst, og nærri eingöngu, komið undir því, hvernig maðurinn er, sem gegnir því.

En jeg er á móti frv. af því, að jeg fæ ekki sjeð, að fyrir því hafi, yfirleitt, verið færðar gildar ástæður, að nauðsyn sje að lögfesta þetta sendiherraembætti, eins og nú er ástatt. Það hefir verið sagt, að af því að Danir hafi sent hingað sendiherra, þyrftum við einnig að senda mann til þeirra. jafntiginn. En það ætti þó að vera fljótsjeð, að okkur er alveg ókleift að láta það ráða útsendingu manna frá okkur, hvað aðrar þjóðir sjá sjer fært að senda hingað. Öll ríki veraldar gætu sent sendiherra til Reykjavíkur, og væri þó engin sanngirni að ætlast til þess, að við gætum sent mann í staðinn, enda ætlast enginn til þess, því allur heimurinn veit, að við erum ekki færir um það, og þess vegna er jafngott að við viðurkennum þetta sjálfir undir eins.

Hin ástæðan, sem fram hefir verið færð, er sú, að nauðsynlegt sje að lögfesta embættið, svo að lagaheimild sje fyrir gjaldskrá þeirri, sem sendiherrann á að fara eftir. En jeg skil ekki annað en að slíka gjaldskrá megi setja með stjórnarráðstöfun.

Að öðru leyti get jeg tekið undir með hv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að þegar embættið er lögfest, verður ríkissjóður að borga það, hvað sem það kostar. Það verða skoðuð sem föst, lögákveðin útgjöld, þótt þau sjeu, að nafninu til, ákveðin í hverjum fjárlögum. Það fje, sem nú fer til þeirra starfa, sem hjer er um að ræða, mun vera um 48 þús. kr. Nú er það beinlínis og óbeinlínis viðurkent af hæstv. forsrh. (J. M.), að þetta sje ekki nóg, t. d. þar sem hann talaði um það, að valið á manninum hefði m. a. verið gert með tilliti til þess, að hann hefði þótt fremur efnaður maður, og má því búast við raunverulegum gjaldaauka hvenær sem er.

Yfirleitt má segja, að nægur tími væri til lögfestingarinnar — með þeim fjárhagslegu böggum, sem hún bindur — þegar reynsla væri fengin fyrir nauðsyn embættisins, eða því, hvort gagnið af því væri svo mikið, að menn vildu þess vegna taka á sig þessi fjárframlög.

Eitt atriði er enn þá athyglisvert, s. s. það, að með lögfestingunni er hverri stjórn gefið aðhald til þess að skipa á ný í sætið, undir eins og það kynni að losna. En það er ekki heppilegt að þurfa ef til vill að setja einhvern og einhvern, sem menn væru ekki fullánægðir með, í embætti, þar sem alt er undir manninum komið. Þessir örðugleikar, sem jeg á hjer við, hafa meira að segja komið í ljós undir eins við fyrstu veitingu, því hæstv. stjórn mun hafa dregið veitinguna, að eins af því, að hún kom ekki fyr auga á heppilegan mann, sem hún treysti. En ef hinsvegar hefði verið skylt að skipa þá í embættið undir eins, er eftir því að dæma hætt við, að til þess hefði orðið að veljast einhver, sem stjórnin hefði ekki verið ánægð með. Og mundi það nú ekki geta verið hagkvæmt einnig seinna, að hægt yrði að hafa á sjer samviskusamlegan andvara um veitinguna?

Þá hefir það einnig verið fært fram sem ástæða, að raddir hafi komið fram hjeðan um það, að æskilegt væri, að Danir sendu sendiherra hingað, og væri okkur þess vegna skylt að gera þeim sömu skil. Verið getur þetta, en sjerlega almennar raddir held jeg að þetta hafi ekki verið. Og heilladrýgst mun vera að framkvæma bókstaflega þau ákvæði sambandslaganna, að hvort landið um sig ráði því sjálft, hvernig hagsmuna þess sjálfs skuli gætt í hinu landinu.

Eitt atriði er það svo að lokum, sem jeg get ekki leitt hjá mjer, úr því á það var minst hjer. Það hefir verið talað um væntanlegan sendimann Svía í þessu sambandi, og sagt, að samskonar óskir hafi komið hjeðan um hann og um danska sendimanninn. Jeg verð að segja það, að jeg hefi oft átt bágt með að stilla mig, þegar jeg hefi sjeð þessar „óskir“, sem sum blöðin hafa leyft rúm hjá sjer, því það er vitanlegt, að þessar „óskir“ stafa frá einum fámennum hóp, en allur almenningur lætur sig þær engu skifta, og er það fjarstæða að tala um almennan vilja í sambandi við þær.

Mjer virðist sjálfsagt, að Svíar hagi þessu máli eins og þeim þykir best henta, án íhlutunar hjeðan, og blaðaóskir eins og þær, sem hjer er um að ræða, eru auðvitað ekki bindandi fyrir okkur, hvorki að því er snertir Svía nje Dani.