07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Fjárhagsnefndin hefir ekki getað gert brtt. við tekjuhluta fjárlaganna, af þeirri ástæðu, að enn er ekki sjeð fyrir um afdrif ýmsra tekjuskattsfrv., sem eru á ferðinni. Það hefir verið búist við því, að Alþingi muni verða slitið á laugardaginn er kemur, en það horfir nú ekki betur en það, að sum stærstu skattamálin eru ekki ennþá afgreidd úr háttv. Nd., og geta því ekki komið til meðferðar hjer fyr en í næstu viku. Það er því auðsjeð, að nefndin hefir mjög lítinn tíma til að athuga málið, ekki síst þareð ýms stórmál eru eftir, sem koma hingað í næstu viku, t. d. eins og fasteignaskattsfrv. o. fl. Það er því mjög leitt, að þessum tekjufrv. skuli vera haldið svo lengi í háttv. Nd. En fjhn. vill þó reyna að gera háttv. deild nú þegar nokkra grein fyrir því, hvernig tekjuhliðin muni líta út, og leggur því til grundvallar sum frumvörp stjórnarinnar, sem vitanlegt er, að muni verða samþykt.

Það er þá fyrst, að ábúðar- og lausafjárskattur fellur burt, en í stað hans kemur fasteignaskattur, sem er áætlaður 270 þús. Tekjuskattsfrv. er til umræðu í dag í háttv. Nd., og er því ekki hægt að segja, hve miklar tekjur megi áætla eftir því frv. Stjórnin hefir nú heldur enga áætlun gert um þennan tekjuauka í ástæðum fyrir frumvarpinu, en heyrst hefir, að fjármálaráðherra (M. G.) hafi í ræðu áætlað skattinn um 1 miljón kr. En eins og frv. kemur frá stjórninni, þá mundi nefndin varla treystast til að áætla tekjur af því hærri en 600,000 kr. Því að mjög líklegt er, að skatturinn verði mjög lítill af hinum hærri stofnum, þar sem framleiðslan hefir orðið fyrir svo þungum áföllum, og að sjálfsögðu tekur langan tíma þangað til hún rjettir við, svo að vænta megi mikils gróða af henni. Tekjuskatturinn síðasta ár nam ekki meiru en 600 þús. kr., jafnvel þó að háskatturinn væri mikill. Dýrtíðar- og gróðaskattur fellur burt samkvæmt frv. stjórnarinnar um tekjuskatt. Aukatekjur áætlar stjórnin 150 þús., og telur nefndin, að sú áætlun sje rjett. Erfðafjárskatt áætlar nefndin um 20 þúsund krónur. Vitagjald áætlum vjer eins og í fjárlagafrumvarpinu, eða 100 þús. kr. Það var samkvæmt síðustu landsreikningum ekki meira en 60 þús. kr., en nefndin áleit að óhætt mundi vera að setja það 100 þús. kr., þar sem það mun hafa verið hækkað síðan. Leyfisbrjefagjald virðist mega telja 10,000 kr. og útflutningsgjald um 500,000 kr. En áætlunin um útflutningsgjald byggist á því, að tillögur stjórnarinnar verði samþyktar. En samkvæmt þeim falla lögin frá 1919 í burtu, en eftir verður síldartollurinn einn, sem stjórnin hefir flutt sjerstakt frumvarp um, og þar sem það heldur dregur úr tollinum vegna frádráttar, sem heimilaður er í frv., þá virðist síldartollurinn varlega áætlaður um 200 þús. kr. Við útflutningsgjald bætist því 1% gjald af útfluttum vörum, sem nefndin telur víst, að verði samþ. og kemur í staðinn fyrir 1% stimpilgjaldið, og áætlar stjórnin það gjald um 300 þús. kr., og telur nefndin það síst of hátt. Áfengistollinn virðist mega áætla um 200 þús. og tóbakstoll um 500 þús. kr. 1919 reyndist hann 700 þús. kr., en er nú áætlaður í fjárlögunum 400 þús. kr., og mun því sanni næst, að hann nemi ca. 500 þús. kr. Lestagjaldið er látið standa óbreytt eins og stendur í athugasemdum stjórnarinnar, sem sje 40 þús. kr. Kaffi- og sykurtollur er áætlaður 800 þús. kr.; stjórnin gerir ráð fyrir, að tollur af sykri og kaffi og áfengi og tóbaki muni nema 2 milj. kr., en nefndin fer ekki svo hátt, og áætlar 11/2 miljón. Vörutollurinn verður líklega ekki eins hár nú eins og áður, jafnvel þó að gjaldið hafi verið hækkað í einum flokkinum, því að það hefir verið fært svo mikið á milli flokka, úr dýrari flokki í ódýrari flokk, og telur nefndin því rjett að áætla frv. um 1 milj., og það verður að taka tillit til þess, hve tímarnir eru erfiðir og horfurnar ískyggilegar. Annað aðflutningsgjald áætlum vjer 60 þús. kr. eins og nú stendur í fjárlagafrv. Gjald þetta hefir að vísu verið hækkað, en hinsvegar er búið að banna innflutning á sumum þeim vörum, sem heyra undir þennan flokk, og hefir því nefndin talið rjett að halda sjer við gömlu áætlunarupphæðina. Nefndin hefir áætlað 500 þús. kr. stimpilgjald, en eftir frv. stjórnarinnar er slept 1% gjaldi af öllum útfluttum vörum, og dregur það afarmikið úr gjaldinu. Símatekjur 1919 reyndust 828 þús. kr. og áætlaði nefndin þær nú 800 þús. kr. Nefndin gerir ráð fyrir, að pósttekjur nemi 240 þús. kr., eins og stendur í stjórnarfrv., en það getur vel komið til greina að hækka þá upphæð. Samkvæmt þessari áætlun nefndarinnar, sem hún þó áskilur sjer rjett til að breyta, þá nema tekjurnar af 2. gr. um 5,790,000 kr., en eftir frv. 5,945,000 kr., og er því áætlun nefndarinnar, er tekið hefir verið tillit til skattafrv., sem eru á leið í þinginu og gert er ráð fyrir að verði samþykt, nokkuð lægri en tekjuhliðin nú er áætluð í fjárlagafrv., þegar gömlu skattarnir eru lagðir til grundvallar. Nefndin hefir ekki áætlað neitt fyrir einkasölu af tóbaki, en ef hún yrði samþykt og gengið er út frá 200 þús. kr. tekjum af henni, þá mun áætlun nefndarinnar verða lík og stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Við 3. og 4. og 5. grein hefir nefndin ekkert að athuga.

Eftir þessu verður hallinn á fjárlögunum hjer um bil 2,476,982,37 kr.

Jeg veit, að hæstv. fjrh. (M. G.) mun komast að nokkuð annari niðurstöðu um tekjurnar, þar sem hann hefir gert ráð fyrir, að tekjuskatturinn yrði 400,000 kr. hærri en nefndin áætlar og aðflutningsgjald 500,000 kr. hærra og vörutollur 14 milj. kr. hærri. En eins og tekið hefir verið fram, þá hefir nefndin ekki getað fallist á þessar áætlanir. Þar sem svo mörg af tekjuaukafrv. stjórnarinnar eru ekki komin í gegn um þingið, þótt nefndin þykist sjá fyrir örlög þeirra, þá hefir hún ekki getað gert brtt. við tekjuhliðina, en hefir talið skyldu sína að gefa bæði fjvn. og háttv. deild nú þegar á þessu stigi skýrslu um, hvernig tekjuhliðin stæði. Að sjálfsögðu mun nefndin athuga tekjuhliðina enn ítarlegar og leitast við að gera brtt. við frv. áður en það fer hjeðan úr háttv. deild.