28.02.1921
Neðri deild: 10. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

43. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Bjarni Jónsson:

Jeg vil gera stuttar athugasemdir um það, sem þeir hafa nú með sjer rætt, háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og hæstv. forsætisráðherra (J.M.).

Mjer finst naumast rjett að bera saman vegamálastjórastörf og sendiherrastöðu, því sá er munur þar á, meðal annars, að enginn vefengir nauðsyn þess, að vegamálastjóri sje í landinu, en sumir telja sendiherrastöðuna ónauðsynlega. Og ef sú stefnan kynni einhverntíma að verða ofan á í einhverju þingi, þá er hægurinn hjá að fella niður lið af fjárlögunum, og leggja embættið niður. Þetta eitt finst mjer næg ástæða til þess að samþykkja frumvarpið.

Gagnvart hæstv. forsrh. (J. M.) vil jeg láta þess getið, að jeg fæ ekki sjeð, að það rýri í nokkru sóma sendiherrasveitar vorrar, þótt þeim sömu mönnum væru á hendur falin önnur og fleiri störf jafnframt. Slíkt er algengt, að sami maður hafi fleiri en eitt starf með höndum, og mætti jeg í því sambandi nefna ekki óvirðulegra dæmi en það, að konungur okkar er 1 maður, en 2 konungar. Er það furðulegt, að nokkur maður skuli geta litið svo á, að það dragi úr sendiherrasómanum við það að ræðismannsstörfin fylgdu.