03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

1335Þorleifur Jónsson:

Jeg efast ekki um, að háttv. nefnd hefir athugað þetta mál allrækilega. En þótt jeg hafi ekki borið fram brtt. að þessu sinni, vildi jeg þó gera ýmsar smáathugasemdir um frv. Jeg skal játa það, að mjer virðast brtt. nefndarinnar yfirleitt til bóta, en þó vildi jeg gera athugasemd við eitt atriði.

Í 11. gr. a. er sagt, að draga megi þann kostnað, sem gengur til að afla teknanna. Í seinni lið sömu greinar má þó ekki telja til rekstrarkostnaðar kaup handa skylduliði atvinnurekandans, nema það telji fram tekjur sínar sjerstaklega. Við þetta hefi jeg það að athuga, að skylduliðið vinni fyrir búinu, og því á þá ekki að draga kaup þess frá eins og annara verkamanna. Það er altítt, að börn vinni við bú foreldra sinna, og því má þá eigi draga kaup þeirra frá, eins og vandalausra, og telja það til rekstrarkostnaðar. Þetta á bæði við um land- og útvegsbændur. Jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vilji ekki breyta þessu í þá átt, sem jeg hefi bent á. Það kemur varla til mála, að skylduliðið telji fram sjerstaklega, því að kaup þess er yfirleitt svo lágt.

Þá vil jeg vekja athygli nefndarinnar á því, að þó að hún hafi felt úr fatnað í 18. gr., þá er það svo lítilvægt, að fleira verður að koma á eftir. Jeg tel sjálfsagt að fella einnig undan bókasöfn. Það er í sjálfu sjer hart að vera að skattleg?? smá bókasöfn, sem einstakir menn eiga. Þessar mentalindir heimilanna á ekki að elta með álögum. Það ber enn oft við, að menn verja stórfje til bókakaupa, og gefa síðan safnið einhverri opinberri stofnun að sjer látnum. Það virðist því hart að skattleggja slíkt, auk þess sem bókasafn verður að teljast bráðnauðsynlegt á hverju heimili. Það er vafasamt, hvort skattleggja á innanstokksmuni yfir höfuð. Því verður ekki neitað, að þeir verða að teljast nauðsynlegir, og einnig er erfitt að koma mati á þá. Jeg vil því leggja til, og beina því til nefndarinnar til yfirvegunar, hvort ekki sje rjett að undanskilja bókasöfn og innanstokksmuni skattgjaldi.

Einnig tel jeg breytingu 13. gr. til bóta, og mjög sanngjarnt að hafa þann frádrátt, sem brtt. fer fram á. En þó. finst mjer þetta sanngjarna ákvæði ekki ná nógu langt. Jeg hefði kunnað betur við, að það hefði einnig náð til þeirra persóna, sem búa saman, þótt ógift sjeu, veita heimili forstöðu og ala ef til vill upp fjölda mannvænlegra barna. Virðist mjer sem rjettur þeirra ætti að vera hinn sami.

Að öðru leyti hefi jeg ekki neitt sjerstakt að athuga við frv. eða brtt. nefndarinnar, en jeg vildi leyfa mjer, lítilsháttar þó, að vekja athygli á framkvæmdum þessara laga í framtíðinni.

Það er vandasamt starf, sem skattanefndirnar koma til með að hafa með höndum, þegar frv. þetta er orðið að lögum, að minsta kosti fyrstu árin.

Hjer á landi er mörgum skattgreiðanda erfitt að gefa upp tekjur sínar og útgjöld, og á það ekki síst heima við bændur, því að eins og kunnugt er, er það aðeins undantekning, að þeir færi búreikninga.

Þessum mönnum þyrftu skattanefndirnar að koma að liði og hjálpa til að glöggva sig á rekstri búsins.

Vitanlega má varla búast við, að góður rekspölur komist á þetta þegar í stað, en sjálfsagt getur stjórnin ljett mikið undir með skattanefndunum, með því að gefa út nákvæma reglugerð um alt, er að þessu ábyrgðarmikla starfi lýtur.

Eins og jeg hefi tekið fram, hlýtur starf skattanefndanna að verða geysimikið, og því afarnauðsynlegt, að búið sje vel í höndur þeirra.