03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Jónsson:

Það var lítils háttar atvik, sem kom mjer til að standa upp að þessu sinni, sem jeg mun síðar minnast á.

Vil jeg þá þegar minna á það í viðurkenningarskyni, að hjer eru á ferðinni lög, sem ganga langt frá öllu rjettlæti. Má það til þess færa meðal annars, að gjöldin koma harðast niður á miðlungstekjunum, og verða því þeir menn verst úti um skattgjaldið, sem miðlungstekjur hafa og skattanefndirnar vita best um, en það eru embættismennirnir.

Ekki munu heldur skattanefndirnar vera óskeikular. Hefi jeg heyrt, að í tveim nágrannahjeruðum hafi svo miklu munað hjá skattanefndunum, að þurft hafi að tífalda gjaldið á manni í hreppnum A. til þess að jafna við mann í hrepp B., en báðir þessir menn áttu að bera jafnháan tekjuskatt. Að vísu voru þetta hvortveggja útgerðarmenn og höfðu ekki fastar tekjur.

Annars vil jeg ekki væna höfund frv. um ósanngirni, þótt mjer þyki sýnt, að hann hækki helsti hægt skattinn á hinum stærri upphæðum.

Þá vil jeg drepa á ákvæði 8. gr., um að skattskyldar skuli vera tekjur manna af vísindum, bókmentum og listum. Þetta ákvæði sýnist mjer nokkuð tvíeggjað sverð. Ef slíkir starfar væru vel launaðir, þá væri þetta rjett. En sú er raunin, að fyrir bókmentastarfsemi fá menn hjer ekki nema 1/100 hluta þess, sem þeir eiga með rjettu, og margir verða að borga fje úr eigin vasa, til þess að koma verkum sínum fyrir almennings sjónir. Sýnist því ekki rjett, að þessir menn greiði skatt í ríkissjóðinn af því, sem þeim er tap en ekki gróði. Mætti því bæta við greinina: ,,þó því aðeins að þeir sleppi skaðlausir“. Ef jeg fæ eina krónu fyrir 100 krónur, þá þykir mjer nóg að greiða þjóðinni þessar 99 krónur, þótt ekki greiði jeg líka skatt af þessari 1 krónu. Er þetta dæmi rjett, því að slíkir menn vinna verkið fyrir þjóðina og hún nýtur ávaxta þess. Að vísu eru tekjurnar litlar, sem þessir menn hafa, og því ekki hár sá skattur, sem þeir þurfa að greiða. En það ætti að viðurkenna með lögum rjett þessara manna, með því að þiggja þá undan skattinum.

Þá kem jeg að því atriði, sem rak mig á fætur. Þegar jeg las 18. gr. frv., þá urðu fyrir mjer þau firn, sem jeg held að hvergi muni sjást í löggjöf siðaðra þjóða, að taka skatt af bóka- og listasöfnum. Er jeg þess viss, að svo spakur maður sem Njáll hefði látið sjer slíkt segja þrem sinnum. (S. St.: Ætli hann hefði ekki látið sjer nægja tvisvar). Satt er það, að Sigurður er sálnahirðir og nauðkunnugur hinumegin, og ætti því um þetta að vita. En eftir þeim kynnum, sem jeg hefi haft af skapferli Njáls, þá mun jeg þó ekki frá þessu hverfa. Það er svo langt frá því, að rjett sje að skattleggja menn fyrir það að afla sjer bóka og listaverka á heimili sín, að það ætti miklu fremur að verðlauna menn fyrir.

Jeg veit, að hæstv. fjrh. (M. G.) mun segja, að skatturinn sje lágur og að ekki muni um að greiða hann. En með þessu er búið að smeygja inn litla fingrinum, og altaf má hækka skattinn. Þessi skattur hlýtur að draga úr bókakaupum manna, og af því að hann er aðeins ákveðinn af skuldlausri eign, þá mega menn að vísu eiga bækurnar skattfrjálsar meðan þær eru ekki borgaðar. En þá má guð hjálpa veslings bóksölunum, ef menn skáka í því skjólinu að fá bækurnar til láns og tregðast við að borga þær.

Með þessum skatti er stigið spor í þá átt að letja almenning til bókakaupa, og þar með til mentunar og andlegra framfara.

Jeg vil minna hjer á dæmi, sem áður hefir verið hjer upp tekið, að ef maður ætti bókasafn fyrir 100 þúsund krónur, sem hann legði stöðugt fje til að fullkomna og ætlaði að gefa það Háskólanum að lokum, hvort ekki þætti þá háttv. þm. það tilhlýðilegt og sanngjarnt, að þessi maður borgaði árlega háan skatt af þessari eign, sem hann ætlaði að gefa landinu.

En ef mönnum sýnist rjett að skattleggja bókasöfn einstakra manna, þá ættu sveitarfjelögin að hafa rjett til þess að skattleggja bókasöfn landsins. Væri þá sjálfsagt fyrir bæjarstjórnina hjer að leggja drjúgan skatt á Landsbókasafnið.

Það er nú yfir því kvartað, að sveitarfjelögin vanti tekjustofna, en úr því mætti bæta að nokkru með því, að þau skattlegðu bóka- og listasöfn landsins.

Þessi skattur er einnig að því leyti heppilegur, að menn eru nú svo óðfúsir að kaupa verk íslenskra listamanna, til þess að þeir geti dregið fram lífið, eða hitt þó heldur, að rjett væri að leggja þeim stein í götu með þessu skattgjaldi. Nema sú sje ástæðan, að stjórnin vilji meina einstökum mönnum að kaupa listaverkin, af því að ríkissjóður vilji endilega kaupa þau sjálfur, og er það í samræmi við undirtektir þingsins undir fjárveitingar til slíkra kaupa nú.