07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Sigurðsson:

Jeg ætlaði ekki að taka til máls í þetta sinn, en háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) ýtti svo við mjer, að jeg get ekki setið hjá, án þess að segja nokkur orð. Hann gat mín í lok ræðu sinnar, sjerstaklega í sambandi við till., sem við 4 flm. eigum á þskj.497,og þótti mjer það einkennilegt, þar sem jeg er ekki fyrsti flutningsmaður hennar. Það er ekki þann veg, að mjer þætti vansæmd að þessu, síður en svo. Þótt jeg sje ekki frsm.till., þá vil jeg gera grein fyrir því, úr því að á mig er yrt í þessu sambandi, hvað fyrir mjer vakti, er jeg gerðist flm. hennar.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) gaf það í skyn, að jeg krefðist rjettlætis til handa framleiðendum, en gerði þó jafnframt mitt til að færa rjettlætið úr lagi, og færði það til sjerstaklega, að þessi brtt. mín á þskj. 497 gerði það að verkum, að skatturinn kæmi lítið niður á hærri upphæðunum.

Það má vel vera að það sje rjett, að það komi tiltölulega ljettar niður á háar upphæðir í bönkum og sparisjóðum, en það kemur ekki fram fyr en tekjurnar hafa náð vissu hámarki, og það mark er svo hátt, að fáir eða engir munu hafa náð því. En þetta sem aðrar frumsmíðar stendur til bóta.

Í tillögu okkar er gert ráð fyrir, að bankar og sparisjóðir greiði skatta af tekjum einstaklinga af innstæðum þeirra. Eftir lögunum á hver einstakur að borga af sínum tekjum, þessum sem öðrum. Til þess að fá vitneskju um tekjur manna af vaxtafje, verða skattanefndir að skrifa bönkum og sparisjóðum og spyrjast fyrir um hvern einstakan gjaldanda. Ef þetta ætti að koma að fullum notum, nást í allar slíkar skattskyldar tekjur, þyrfti hver einasta skattanefnd að skrifa öllum peningastofnunum á landinu, sem eru svo mörgum tugum skiftir, fyrirspurnir um allan þorra gjaldenda í hverjum hreppi. Þetta er lítt framkvæmanlegt verk; skattanefndirnar skrifa nær eingöngu þeim peningastofnunum, sem næstar þeim eru. Sparisjóðsstjórnir kvarta því mjög um, að ýmsir taki út fje sitt og setji það á vöxtu í sparisjóðum, er lengra eru í burtu, eða láni það einstökum mönnum, eða jafnvel leggi það í erlenda banka.

Það er jafnvel svo komið, að margir leggja fje inn undir gervinafni, eða þá að ekkert nafn er tilfært í bókunum. Og þegar skattanefndirnar spyrjast fyrir um eigendurna, getur bankinn eða sparisjóðurinn ekki gefið upp nöfn eigendanna, og komast því þessar innieignir alveg undan skatti.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að það væri ekki unt fyrir banka að greiða skatt af þessu fje, ef hann vissi ekki um eigandann, en eftir tillögunni eru bankarnir skyldaðir til að greiða skattinn, hver sem eigandinn er. Það færist aðeins sem frádráttur á reikninginn, og skattanefndin þarf þá heldur ekki að vita, hvað hver einstakur á.

Sparisjóðsstjórnir bera skattanefndum það á brýn, að þær leggi sparisjóði of mjög í einelti og að ekki sje grenslast eins eftir annarsstaðar um hag manna, svo að sparisjóðirnir bíði stórtjón af þessum ákvæðum skattalaganna. En með brtt. okkar er algerlega fyrir þetta girt og margt annað, sem jeg hefi áður drepið á.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. En úr því að jeg stóð upp, vildi jeg aftur minnast örfáum orðum á brtt. á þskj. 517, og þá sjerstaklega út af ummælum háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Hann gat þess, að hann vildi eingöngu leggja útflutningsgjaldið á framleiðendurna, til þess að forðast það, að landið þyrfti að taka lán. Jeg er líka sannfærður um, að framleiðendur munu fúsir til að taka á sig gjöld, að þeir muni síst af öllum skorast undan þeim. Jeg býst við, að jeg geti talað þar fyrir munn okkar allra framleiðenda. En við viljum, að fleiri beri gjöldin en útflytjendur; við krefjumst rjettlætis og samræmis í skattalöggjöfinni sem á öðrum sviðum, en ekki hlunninda handa einstökum stjettum þjóðfjelagsins. Það er það eina, sem jeg fer fram á í tillögu minni.

Ef gert er ráð fyrir, að tekju- og eignarskatturinn ætti að greiðast af 30 þús. manna — sú tala er vitanlega áætlun — en eftir lögunum er það nálega hver vinnufær maður, sem verður skattskyldur. Ef svo er gert ráð fyrir, að framleiðendur sjeu 10 þúsund, og upphæðin um 260 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að útflutningsgjaldið gefi af sjer, þá ætti það að liggja öllum í augum uppi, að það er ekki sama hvort 260 þús. kr. deilast niður á 30 þús. gjaldendur eða aðeins á 10 þúsund gjaldendur.

Ef það er því rjett, sem háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) hjelt fram, að það sje tilfinnanlegt að borga þetta gjald sem tekju- og eignarskatt, þá geta allir sjeð, hversu langtum tilfinnanlegra þetta er fyrir 2/3 færri gjaldendur.

Einn af vinum mínum hjer í deildinni sagði við mig áðan, að jeg mundi eiga í þetta skifti fáa skoðanabræður, en af því að jeg er sannfærður um, að jeg berst fyrir rjettu máli, þá læt jeg mig engu skifta sjálfs mín vegna, þótt jeg standi einn uppi með þessa skoðun.