07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorláksson:

Út af því, sem sagt hefir verið um brtt. mína, þá vildi jeg aðeins drepa á þær tvær ástæður, er háttv. frsm. (Sv. Ó.) nefndi um hlutafjelögin og samvinnufjelögin.

Hann sagði, að samvinnufjelögin söfnuðu í sjóði, sem væru almennings eign, en hlutafjelögin ekki. En þetta kemur ekki beint málinu við. Tillaga mín fer aðeins fram á að skattleggja ekki þann hluta arðsins, sem kæmi til úthlutunar til hluthafa í hlutafjelögum, vegna þess, að tilsvarandi arður er samkvæmt frv. ekki skattlagður hjá samvinnufjelögum, en fjallar á engan hátt um þann hluta arðsins, sem lagður er í sjóði. Það er auk þess rangt, að sjóður samvinnufjelaga sje almennings eign, því að hann er eign fjelagsins meðan það starfar, þó að sett sjeu nokkurskonar ákvæði um erfðarjett til annara fjelaga eða hjeraða, ef samvinnufjelag líður undir lok. Þess vegna er ekki heldur rjett að undanþiggja þá skatti, meðan þeir eru eign starfandi fjelags. Þeir ættu ekki að vera undanþegnir skatti fremur en eignir einstakra manna, af því, að eftir lögum er ákveðið, hverjir skuli erfa þær.

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) lýsti því í rauninni yfir, að tilgangur samvinnufjelaga og hlutafjelaga væri sá sami. Hann sagði nefnilega, að samvinnufjelögin miðuðu að því að bæta hag fjelagsmanna sinna, en hlutafjelögin vildu styðja hagsmuni sinna fjelaga; þetta er öldungis sama, enda eru hvortveggja fjelögin rekin í hagsmunaskyni, engu síður samvinnufjelögin en hlutafjelögin. Og þótt það sje máske ekki mjög títt, að hlutafjelög sjeu starfrækt hjer fremur í þeim tilgangi að halda uppi þarflegri starfsemi en í gróðaskyni fyrir hluthafa, þá eru slíks þó nokkur dæmi, og ættu slík hlutafjelög þá meiri rjett til undanþágu frá sköttum en samvinnufjelögin alment.

Jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta þau ummæli hæstv. fjrh. (M. G.), að þessi útborgaði arður samvinnufjelaganna verði aldrei eign þeirra, því að það sje fyrirfram ákveðið að borga hann út, og því eigi ekki að skattleggja hann. Það er nú kannske rjett, að hann sje ekki eign fjelaganna, þegar búið er að ákveða hann og færa hann yfir á reikninga hvers einstaks fjelagsmanns í bókunum. En jeg veit, að hæstv. fjrh. (M. G.) muni sannfærast um það, þegar hann athugar málið, að t. d. eigendur Sláturfjelagsins, sem fá því vörur til sölu, geta ekki gert kröfu um arð eða talið hann fjelaginu til skuldar, fyr en reikningsárinu er lokið og búið er að færa arðinn yfir á nöfn einstakra fjelagsmanna eða að ákveða að borga hann út. Allur arðurinn er eign fjelagsins uns þessi athöfn er um garð gengin, annaðhvort að ákveða að borga hann út eða yfirfæra hann á nafn.

Og það er þá alveg tilsvarandi athöfn hjá hlutafjelögunum, þegar þau ákveða að borga út allan arð sinn. Af þeirri ástæðu er það ekki fremur rjettlátt að skattleggja þennan hluta arðsins hjá hlutafjelögum en hjá samvinnufjelögum. En mín tillaga fer nú ekki fram á það, að skattleggja hann hjá samvinnufjelögunum, því að jeg veit, að það mundi ekki fá framgang, heldur vildi jeg, að samræmi væri komið þar á með því, að útborgaður arður hlutafjelaga yrði einnig undanþeginn skattgjaldi.

Hæstv. fjrh. (M. G.) lýsti því yfir, að ekki væri ástæða til, að breytt yrði ákvæðinu um niðurjöfnunina í Reykjavík, vegna þess, að ákvæðið verði ekki látið koma til framkvæmda nema samkomulag náist við bæjarstjórnina. Jeg efast ekki um, að hann geti lofað því, að svo skuli verða í hans tíð, en það er naumast bindandi fyrir eftirkomendur hans. Því að ef lögin verða samþykt eins og þau eru núna, þá áskilja þau ekki, að samþykki bæjarstjórnarinnar skuli til koma. Jeg get þess vegna ekki fundið neina ástæðu til að falla frá brtt.

Mjer finst ástæða til að henda á lofti þau ummæli hæstv. fjrh. (M. G.), að ekki sje auðveldara að breyta hundraðsgjaldinu með fjárlagaákvæði en með venjulegum lögum. Þetta er ekki rjett, því að ef heimilt er að breyta þessu með fjárlögum, þá þarf ekki nema eina umr. í deildinni, og ekki einu sinni að ná samþ. beggja deilda. Hjer er því óþarfur hinn mikli íhreinsunareldur, sem einföld lög þurfa að ganga í gegn um.

Jeg er hræddur um, að tekjuskatturinn muni aðallega lenda á sjávarútgerðarmönnum og embættismönnum, en landbændur sleppi. Og ef sú yrði reyndin, og það er hætt við því, þá yrði óheppilegt að gera þennan skatt hreyfanlegan.