12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

45. mál, Sogsfossarnir

Bjarni Jónsson:

Það vakir enn fyrir mjer um þetta mál, sem fyrir mjer hefir vakað í milliþinganefndinni, að mjer hefir aldrei lærst að taka ályktanir um mikilsverða hluti, án þess fyrst að vita hvernig sá hlutur væri vaxinn.

Jeg held því, að í þessu máli sje ómögulegt fyrir nokkurn þingmann nú að segja um það af nokkru skynsamlegu viti, hvort eigi að virkja Sogsfossana, hvernig eigi að virkja þá og hverjir eigi að gera það, nema áður hafi farið fram rækileg rannsókn á því efni.

Eftir þeirri litlu þekkingu, sem jeg hefi, þá get jeg sagt það, að þetta fallvatn muni tiltölulega auðvelt virkjunar, en þó þori jeg ekki á það að treysta, því nákvæm rannsókn getur leitt annað í ljós.

Mjer er ekki kunnugt um, að slíka þekkingu, sem hjer er um að ræða, sje hægt að öðlast á annan hátt en með rannsókn. Þarf til þeirrar rannsóknar góða menn og óvilhalla og frá þeim löndum og þjóðum, sem ekki hafa áður borið víur í fallvötn hjer, en það væru þá Svíþjóð, Þýskaland eða Vesturheimur.

Að sú rannsókn mundi bæta eða skemma aðstöðu landsins eða einstakra fjelaga eru ekki annað en draumar og heilaspuni; í lögunum er ekkert slíkt gefið í skyn.

Þetta sjest alt ekki fyr en eftir rannsókn, ekki einusinni þeir verkfræðingar, er næstir standa. Þótt þeir hafi ljósa hugmynd um virkjunarkostnað orkuvera, þá munu þeir ekki viðbúnir rannsóknarlaust að segja til um byggingu iðjuvers.

Hvernig sem litið er á málið, þá get jeg ekki skilið, hvernig mönnum getur komið til hugar annað en að byrja með rannsókn, og ef nú á að fresta því að veita heimildina, þá frestast alt málið um jafnlangan tíma. Því að engum skynbærum manni mun detta í hug að gera nokkra ályktun fyr en rannsókn hefir fram farið. Það er þá aðeins eitt til, að þeir treysta ekki stjórninni til að fara með heimildina; að öðrum kosti skil jeg ekki dagskrá minni hlutans. Jeg er nú þektur að því að vera stjórnarandstæðingur, og ber jeg þó fult traust til hæstv. stjórnar í þessu tilliti, en hennar dyggustu fylgifiskar þora ekki að fela henni þetta mál, en vilja hlaða undir útlend fjelög.

Það er sitt hvað að spara og blanda saman eignaryfirráðum; það kemur ekki málinu við, þótt fjelagið eigi lítinn hluta eða helming af vatnsaflinu, því að það kemur ekki til greina. Það verður að láta þennan rjett af hendi, því að það hefir ekki þá aðstöðu, að það geti skrúfað upp verð á vatnsrjettindunum.

Ef það yrði gert, eins og jeg hefi lagt til, að virkja efri hlutann til almennings nota, þá kemur þetta ekki til greina, því eins og háttv. frsm. meiri hl. (J. Þ.) tók fram, þá hefir fjelagið ekki rjett til svo mikils sem undirskálar af vatni.

Yfirleitt álít jeg alt tal um það að ná tangarhaldi á yfirráðum á Soginu alveg óþarft, því að landið hefir rjettinn. — Þó það væri ekki rjett, sem jeg álít, að enginn hafi eignarrjett á vötnum landsins, þá þarf ekki að samþykkja að gera skuli kaupsamning um sölu á þessum rjetti; það þarf ekki annað en láta þá vita, að þeir fái ekki að virkja fossinn.

Það er óskiljanlegur hlutur, hvers vegna menn vilja vísa þessu máli frá núna, því að um jafnlangan tíma og það dregst að afgreiða það, jafnlengi dregst málið.