17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

45. mál, Sogsfossarnir

Bjarni Jónsson:

Út af orðum, sem fallið hafa hjer í deildinni, vil jeg láta þessu máli fylgja frá mjer þá yfirlýsingu, að jeg geri það að minni kröfu til stjórnarinnar, að hún láti rannsókn þessa framkvæmda af alveg hlutlausum mönnum. Jeg hefi áður bent á, að slíka menn myndi mega fá bæði frá Svíþjóð og Bandaríkjunum, því það þykist jeg mega fullyrða, að báðar þessar þjóðir sjeu ósnortnar af því að vilja gína yfir íslenskum rjettindum. Hina, er til mála gætu komið, tel jeg tortryggilega og í engu treystandi. Háttv. frsm. (J. Þ.) hafði að sönnu ekki þau orð, en hann taldi, að Íslandsfjelagið væri vel fært um að rannsaka hjer skilyrði fyrir verksmiðjuiðnaði etc., en það er alt annað en virkjun.

En hins vegar ætti það ekki að vera torsótt fyrir fjelagið, þó að það vildi hafa menn við rannsóknina til athugunar þess, að rjettur og hagur þess yrði ekki fyrir borð borinn. Annars skil jeg ekki þetta mikla skraf um rjettindi fossafjelagsins Íslands, því kunnugt er, að aðrir menn eiga langt um víðtækari rjett til vatnsins, t. d. eigendur Úlfljótsvatns.

Áður en jeg lýk máli mínu, vildi jeg mælast til þess, að háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) vildi taka brtt. sínar aftur. Þær vinna ekki það gagn, sem hann hyggur, heldur fara þær í öfuga átt og kippa burtu höfuðtryggingu frv. Þetta ætti honum að skiljast, úr því hann ber þetta mál svo mjög fyrir brjósti.