13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

1. mál, hlutafélög

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa ræðu fyrir hönd allsherjarnefndar, heldur get skírskotað til ummæla minna við 2. umr.

Um 1. brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er það að segja, að hún er í samræmi við álit allshn. og till. hennar við 2. umr. Get jeg því lýst því yfir, að nefndin er henni samþykk.

Aftur á móti er 2. brtt. þessa háttvirts þm. (J. Þ.) á sama þskj. þess eðlis, að nefndin getur ekki fallist á hana. Rýrir hún og gerir að engu ákvæði 31. gr. frv., sem nefndin lagði og leggur mikla áherslu á, að enginn hluthafi geti haft svo mikið atkvæðamagn, að hann geti með því svift aðra hluthafa fjelagsins persónulegum rjetti sínum. Sýnist mjer, að ætti þá betur við að snúa orðunum alveg við, svo að stæði: í samþyktum má leyfa hluthafa að fara með meira en einn fimta hluta atkvæða. Setjum nú svo, að hlutafjelag eitthvert væri þannig saman sett, að einn maður ætti þrjá fjórðu eða fjóra fimtu hluta hlutafjárins. Hvenær mundi þá vera hægt að koma því í samþyktir fjelagsins, að hann t. d. færi aðeins með einn fimta hluta atkvæða. — Aldrei. Till. ríður alveg í bága við álit allshn. og ákvæði frv.

Því síður getur nefndin fallist á brtt. hv. þm. Str. (M. P.) á þskj. 589, þar sem segir, að í samþyktum megi ákveða, að enginn megi fara með meira en einn þriðja hluta atkvæða í fjelagi. Er hún svo óeðlileg, að naumast getur komið til mála, að hún verði nokkru hlutafjelagi til bóta.