01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) hjelt, að ekki mundi unt fyrir stjórnina að undirbúa málið undir næsta þing, ef leita ætti álits sýslunefndanna, þar sem sýslufundir væru nú um það afstaðnir, og ekki farið að halda næstu sýslufundi áður en Alþingi 1922 kemur saman. Jeg býst nú við, að sýslunefndir yrðu kvaddar á aukafund, til þess að ræða þetta mál, jafnframt ýmsum öðrum málum, sem fyrir þeim kynnu að liggja. Jeg held því, að halda beri því fast að stjórninni að undirbúa málið undir næsta þing.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hjelt, að jeg hefði farið of fögrum orðum um þennan skatt, því að lóðir væru mjög hátt metnar. Þykir mjer óviðkunnanlegt að heyra slík ummæli frá einum af þeim mönnum, sem lagt hafa síðustu hönd á fasteignamatið. Því hvað mun öðrum finnast um þetta margra nefnda verk, ef yfirmatsnefndarmennirnir sjálfir telja sumt af fasteignunum of hátt metið. Býst jeg við, að ganga megi út frá því, að á næstu 10 árum verði lóðir skattlagðar til sýslusjóða og sveitarsjóða, þrátt fyrir það, þótt jafnframt sje goldinn skattur af þeim í ríkissjóð. Jeg held ekki að við getum útvegað sveitar- og sýslufjelögum tekjustofna, sem sjeu skattfrjálsir frá ríkisins hálfu.

Það hefir verið talað um það, að mat á lóðum sje svo hátt, að órjettlátt muni þess vegna að skattleggja þær eins og hjer er farið fram á. Matið hlýtur að vera bygt á því, sem lóðir hafa gengið kaupum og sölum undanfarið, og skattur af lóðum er því jafnrjettlátur og af öðrum fasteignum, sem metnar munu eftir svipuðum grundvallarreglum.