05.03.1921
Neðri deild: 15. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

72. mál, vátrygging sveitabæja

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti! Þótt ekki sje þörf á langri framsögu í þessu máli, vil jeg þó fara um það fáeinum orðum. Breytingarnar, sem hjer er farið fram á, eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi er hún sú, að hámarkið — 6 þús. kr. — verði hækkað um helming, og svo um tryggingu lausafjár.

Það er kunnugt, að núgildandi lög um vátrygging sveitabæja eru frá 1905, en síðan hafa orðið stórfeldar breytingar til sveita, húsakynni manna batnað og peningagildið jafnframt lækkað. Þess vegna ná lögin alls ekki tilgangi sínum nú orðið, því að stærstu og bestu og nýjustu bæirnir eru dýrari en svo, að þeir verði vátrygðir samkvæmt núgildandi hámarki, og brenni nú einhver slíkur bær, er auðvitað loku fyrir það skotið, að unt verði að endurreisa hann fyrir tryggingarupphæðina. Með þessu er einnig dregið úr notum almennings í lögunum, því að þeir sem helst væru líklegir til að koma tryggingarsjóðunum á stofn. draga sig í hlje, einmitt af því, að lögin fyrirmuna þeim að njóta þess hagræðis, er sjóðirnir veita.

Að því er lausafjeð snertir, má minna á það, að með vaxandi hagsæld sveitafólks, hafa kröfur þess einnig aukist, og er nú á sveitabæjum vorum mikið af lausafjármunum, óvátrygðum, sem munu vera margra miljóna virði.

Það er því ekki nema sanngirniskrafa frá okkur sveitamönnunum, að brunabótamálum okkar verði nú komið í svipað horf og kaupstaðanna með stofnun Brunabótafjelags Íslands, og vænti þess, að háttv. deild líti með sanngirni á málið og greiði götu þess.

Að lokum skal jeg svo aðeins geta þess, að eina vangárvillu vildi jeg mega leiðrjetta hjá þeirri háttv. nefnd, sem fær málið til athugunar.