28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

86. mál, samvinnufélög

Jón Þorláksson:

Jeg hefi nú hlustað á ræðu hæstv. atvrh. (P. J.) og háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) um þetta frv., sem fer fram á það að draga takmörk milli samvinnufjelaga og annara fjelaga, sjerstaklega hlutafjelaga. Og mjer virðast umræðurnar hafa sýnt það, að þeir, er samið hafa þetta frv., eru vel kunnugir samvinnufjelögum, en að þeim hefir ekki að sama skapi verið rík í huga þekking á hlutafjelögum. Þeir eru sjer ekki þess meðvitandi, að margt það, er þeir töldu sjerkennilegt fyrir samvinnufjelögin, á alveg eins heima við hlutafjelögin. En það er skiljanlegt, að þegar á að draga þessi takmörk, verður að vera fyrir hendi þekking á báðum sviðum, svo að mörkin verði rjett dregin. Þetta hefir mistekist í frv.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að tilgangur samvinnufjelaganna væri að efla fjelagsskap inn á við og út á við. Alveg það sama má segja um hlutafjelög.

Því var ennfremur haldið fram af þessum ræðumanni, að tilgangur samvinnufjelaga væri ekki sá, að græða fyrir fjelagið, heldur meðlimi þess. Þessu er alveg eins varið með hlutafjelög. Þau eru sjaldan stofnuð til þess að græða fjelaginu til handa, heldur hluthöfum. En mjer er þó skylt að geta þess, að auðvitað eru hlutafjelög einnig stofnuð í öðrum gangi, sem sje þeim, að koma áfram þarflegum fyrirtækjum, sem einstaklingar fá ekki ráðið við.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á það, sem háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að samvinnufjelögin byrjuðu með tvær hendur tómar. Það eru dæmi til þess, að hlutafjelög hafi verið stofnuð á sama grundvelli, tekið lán til þess að fá hlutafje, þótt slíkt sje ekki eftirbreytnisvert.

Þá kem jeg að ummælum hæstv. atvrh. (P. J.), þar sem hann benti á einsök atriði í 3. gr., og taldi þau taka af öll tvímæli á takmörkum milli samvinnufjelaga og hlutafjelaga.

Vildi jeg þó byrja á ummælum háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) um 2. lið 3. gr. Það er satt, að sameiginleg, ótakmörkuð ábyrgð er andstæð eðli hlutafjelaga. En háttv. þm. (Þorst. J.) gleymdi því, að þetta ákvæði gildir aðeins fyrir eina tegund samvinnufjelaga, kaupfjelög og pöntunarfjelög. Um 3. lið er það að segja, að mörg hlutafjelög mundu vilja breyta lögum sínum í þá átt, ef til nokkurs væri að vinna.

4. liður getur átt við flest hlutafjelög.

Þá sagði hæstv. atvrh. (P. J.) 5. lið ósamrýmanlegan skipulagi hlutafjelaga. Það þarf ekki að vera. Það er undir því komið, hvernig starfsemi fjelagsins er. Sje hlutafjelag stofnað í þeim tilgangi að reka eitthvert framleiðslufyrirtæki, sem einstaklingur ekki fær ráðið við, þá er altaf hægt að fullnægja því ákvæði, að úthluta eftir viðskiftamagni hvers fjelaga. Það verður þá bara að hafa sama bókhald og samvinnufjelögin hafa, sjerstakan reikning fyrir hvern fjelaga. En það er auðvitað, að að svo miklu leyti, sem þessi liður er einskorðaður við keyptar og seldar vörur fjelagsmanna, þá getur hann aðeins átt við kaupfjelög og afurðasölufjelög, en að því er snertir iðnaðarrekstur og aðra atvinnu, þá á hann ekkert fremur við samvinnufjelög en hlutafjelög.

Þá mundi heldur ekkert hlutafjelag telja það eftir sjer að hafa það fyrirkomulag, að nokkru af varasjóðnum skyldi skift í bókunum, eins og segir í 6. lið, milli fjelaga. Það þarf bara að hafa sama reikningshald og hjá samvinnufjelögum. Að vextir af inneign sjeu ekki hærri en 11/2 ofan við innlánsvexti, er vel hægt að fullnægja, ef hagnaður skiftist eftir viðskiftaveltu. Jeg vil biðja háttv. deildarmenn að taka dæmi af trollarafjelagi, t. d. sex manna. Væri ekki hægt að skifta aflanum upp á milli hluthafanna? (Atvrh.: Þá er um einstaklinga að ræða). Já, fjelagsmennirnir eru einstaklingar, alveg eins og í samvinnufjelögunum; en fjelagið gæti með fullum rjetti kallað sig samvinnufjelag samkvæmt þessu frv.

Mjer sýnist það vera hart fyrir sveitarfjelag að leggja slíkri starfsemi alt til, en fara svo á mis við alla skattgreiðslu frá henni. Við skulum hugsa okkur verslunarstað, þar sem eingöngu er kaupfjelagsverslun, og ekki annað fólk til í hreppnum en það, sem hefir atvinnu á vegum fjelagsins. Þá mundu allar byrðar sveitarfjelagsins lenda á starfsfólki fyrirtækisins, en ekkert á fyrirtækinu sjálfu, nema þessi greiðsla af húsum, sem varla getur svarað til útsvarsgreiðslu.

Þá kem jeg að 10. lið, þar sem sá greinarmunur er gerður á samvinnufjelögum og hlutafjelögum, að hjá samvinnufjelögum sje varasjóður ekki útborgaður fjelagsmömmm við fjelagsslit. Þetta er nýmæli í lögum, og því ekki eðlilegt, að það hafi átt sjer stað um hlutafjelög. Jeg verð nú annars að líta svo á, að ályktunin sje dregin of langt, þegar sagt er, að þessi arður sje ekki eign fjelagsmanna. Við skulum taka dæmi af samvinnufjelagi með takmarkaðri ábyrgð. Segjum svo, að fjelagið einhverntíma eigi ekki fyrir skuldum. Þá fer þessi varasjóður til lúkningar skuldunum, alveg eins og varasjóður hlutafjelaga. Og það verður ekki talið heimilt að undanskilja hann frá því, að að honum sje gengið. Hitt býst jeg við, að hlutafjelög teldu sjer ávinning að láta varasjóð vera óskiftan, ef þau þá gætu fengið fjárhagsleg hlunnindi hjá þjóðfjelaginu.

Þá varði hæstv. atvrh. (P. J.) 38. gr. með því, að þar væri um bráðabirgðaákvæði að ræða. Jeg álít málið þess eðlis, að engin von sje um, að sú endurskoðun, sem þar ræðir um, fari nokkurntíma fram. Jeg sje ekki, að komist verði hjá því að nota niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum sem aðaltekjustofn sveitarfjelaganna framvegis sem hingað til.

Hins vegar skilst mjer, að þessi gagngerða endurskoðun eigi við það, að sú niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum verði afnumin. Nú er engin von um, að það verði gert fyrst um sinn, svo að það er augljóst, að hjer er ekki um neitt bráðabirgðaákvæði að ræða.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði meira en hann getur staðið við, er hann mintist á þá niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum, er viðhöfð væri í Reykjavík. Það er að vísu mjög erfitt verk, en það er áreiðanlega unnið með fullri óhlutdrægni og sanngirni.

Það eru skiftar skoðanir um það, eftir hvaða grundvallarreglum eigi að ákveða útsvarsupphæð samvinnufjelaga. En að því er snertir Samband íslenskra samvinnufjelaga, þá verður óefað að gera því svipað útsvar og umboðs- og heildsala með sömu veltu og sömu álagningu.

Að vörurnar komi ekki allar til Reykjavíkur er engin ástæða, því að sama á sjer stað hjá heildsölum og umboðssölum.

Háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) benti rjettilega á það, að enginn maður í samvinnufjelagi losnaði við að greiða útsvar eftir efnum og ástæðum í sínu sveitarfjelagi, þótt fjelagið væri skattfrjálst. Eins er með hluthafa í hlutafjelögum, og þau ættu þá eftir þessu líka að vera skattfrjáls. En slíkt væri óhagkvæmt fyrir þjóðfjelagið, bæði að því er snertir samvinnufjelög og hlutafjelög.