29.04.1921
Neðri deild: 58. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal í stuttu máli snúa mjer beint að kjarna málsins, en víkja alveg hjá þeim umbúðum aðdróttana og annara svigurmæla, sem hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) vafði um ræðu sína. Till. okkar háttv. þm. Barð. (H. K.) er fram komin af persónulegri reynslu og kunnugleik sjálfra okkar á staðháttum og útgerðarskilyrðum á Vesturlandi, og þeim rökum, sem við höfum fært fram, verður ekki hrundið. Hins vegar hefir háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) orðið að byggja alt í þessu atriði málsins á annara sögusögn; líka það, sem hann ætti að vita betur sjálfur. T. d. mundi enginn kunnugur láta segja sjer og trúa annari eins fjarstæðu og þeirri, að togari hafi ekki nema einu sinni komið inn á höfn á Vesturlandi á 7 ára veiðitíma. Mjer er vel kunnugt um það sjálfum, að þetta er misskilningur frá upphafi til enda. Og eins er það misskilningur, að hásetum þurfi yfirleitt að vera misboðið, eða sje misboðið, við veiðar á þessari vertíð, jafnvel þó það komi fyrir, að þeir verði stundum að vinna alt að 20 tímum í einu, eftir að þeir eru kannske búnir að liggja inni dögum saman. Og þetta mundi hver einasti góður háseti gera eftir sem áður, þrátt fyrir öll lög. Og jeg vil, sem gamall sjómaður, mótmæla þeim aukvisaáburði, sem frá sumum mönnum kemur fram gegn sjómannastjettinni, að vilja ekki vinna eins og nauðsyn krefur og unt er, eftir staðháttum og annari aðstöðu við veiðiskapinn; og jafnframt mótmæla því, að hún væri ekki einfær um það að leiðrjetta mál sín, ef henni þætti á þennan hátt gengið á rjett sinn. Annars er þetta mál ekki þannig, að nauðsyn sje að hleypa í það hita og úlfúð. Það er einfalt mál. Því eins og sjómennirnir munu heimta sinn rjett í þessu máli, munu þeir líka sætta sig við sanngjarnar og rjettmætar till., eins og þær, sem felast í brtt. okkar.

En þetta, sem háttv. frsm. meiri hl. (J. B.) sagði, að við værum að lappa upp á sannfæringu okkar með seinni brtt., þá skil jeg það ekki öðruvísi en að það sje sagt í hita, og hjelt jeg þó, að hann þekti mig svo, að hann gæti hagað orðum sínum á annan veg. (J. B.: Þetta er misskilningur; jeg sagði að friða samviskuna). Annars skil jeg ekki tilgang hans með þessum orðum, en jeg skrifaði þau upp þegar hann sagði þau, og frá þeim getur hann ekki gengið, nema þá að hann vilji taka þau aftur. Og jeg skil heldur ekki hvers vegna hann er svo mjög á móti þessari brtt. Tilgangur laganna er að vernda sjómenn fyrir þeirri misbeiting, sem þeir hafa átt við að búa, og það er aðallega á vetrar- og vorvertíð, eins og brtt. okkar fer fram á. Og á öðru byggist frv. ekki. Og jeg álít, að það komi ekki í bág við þennan margumþráttaða hvíldartíma, að hann sje aðeins lögfestur þennan tíma, sem brtt. okkar fer fram á.