16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

91. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. flm. (M. P.) gat þess, að á leiðinni væri stjórnarfrumvarp í Ed., sem snerti breytingu á sömu lögum og frv. hans, fátækralögunum. Það frv. var sent til nefndar, en hefir ekki komið frá henni aftur, og mun það vera af þeirri ástæðu, að nefndin er að bíða eftir berklaveikisfrv., sem að nokkru leyti snertir sama atriði.

Háttv. flm. (M. P.) sagði um þetta frv., að það væri hvorki fugl nje fiskur, en það var ekki til annars ætlað en að vera tölubreyting í gildandi lögum, í samræmi við verðfall peninga. Það var aldrei til þess stofnað, að það frv. yrði nokkur veruleg breyting á fátækralögunum. Það kom fram í háttv. Ed., að æskilegt væri að gera breytinguna um hlutfall milli framlags ríkis- og sveitarsjóða víðtækari, og gat jeg þess þá, að jeg fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti slíkri breytingu. Jeg verð því að álíta frv. háttv. þm. (M. P.) að mestu óþarft, því hitt frv. hefði getað, og getur enn, komið í þess stað, með örlitlum breytingum. Jeg held, að viðkunnanlegra hefði verið fyrir háttv. þm. (M. P.) að bera breytingar sínar undir nefndina í Ed. og reyna að koma þeim þar að, eða koma fram með þær hjer, þegar stjórnarfrv. kemur hingað. Það er þá hægt að gera úr því annaðhvort fugl eða fisk. Jeg tel sjálfsagt, að nefnd sú, sem fær frumvarp þetta til meðferðar, leiti samvinnu við nefnd háttv. Ed., og þá komi til mála að steypa frv. saman.