19.04.1921
Efri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

105. mál, einkasala á áfengi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Það er örstutt athugasemd. Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að það hefði komið fram misskilningur hjá mjer, þar sem jeg hefði gefið í skyn, að samkvæmt brtt. háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) ætti að leggja á verð vörunnar, að meðtöldum tolli. En þar var ekki um neinn misskilning að ræða hjá mjer, því samkvæmt tolllögunum er tollurinn lagður á vöruna komna á höfn. Til þess, að unt hefði verið að skilja brtt. háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) þannig, að samkvæmt henni ætti ekki að leggja á vöruna með tolli, hefði þess vegna orðið að taka það beinum orðum fram í henni. Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hefir alt aðra skoðun á þessu máli en jeg. Vil jeg ekki deila við hann um það, því jeg býst ekki við, að sú deila mundi sannfæra hann, eða leiða til samkomulags.